Þegar starfsmaður bónus lést tók jóhannes til sinna ráða: „hann var góður maður“

Jón Ásgeir Jóhannesson opnaði sig um ýmsa persónulega atburði í lífi sínu í þættinum Mannamál. Jón Ásgeir hefur verið undir radarnum síðustu ár líkt og hann orðar það sjálfur í viðtalinu og veitir sjaldan stór viðtöl. Í fyrri þættinum fór Jón Ásgeir ítarlega í saumana á Baugsmálinu, átökin við Davíð og Sjálfstæðisflokkinn, fall Glitnis og hvaða áhrif allt þetta hafði á fjölskylduna. Í seinni þættinum sagði Jón Ásgeir frá skilnaði foreldra sinna og opnaði sig um sársaukann að missa föður sinn, Jóhannes Jónsson var 72 ára þegar hann lést þann 27. júlí 2013.

Jóhannes var umdeildur maður en hann var líka maður fólksins, almúgamaður sem setti svip sinn á íslenskt samfélag. Það eru til endalausar sögur af Jóhannesi í Bónus. Hann styrkti hin og þessi góðgerðafélög. Þá eignaðist hann marga nána vini á meðal starfsfólks Bónus. Það eru til margar sögur af Jóhannesi og birti Pressan eftirfarandi sögu:

„Í verslun Bónus fyrir einhverjum árum starfaði ungur fjölskyldufaðir sem lét mikið á sér kveða. Hann var harðduglegur og eins og Jóhannes sjálfur, hrókur alls fagnaðar. En svo veiktist ungi fjölskyldumaðurinn og veikindin voru alvarleg. Fljótlega kom í ljós að við tæki barátta upp á líf og dauða. Og dauðinn tók, og eftir var ung kona með barni, heltekin sorg. Jóhannes ákvað að greiða útförina. Það má vera að það þyki mörgum sjálfsagt. En síðan tilkynnti Jóhannes hinni ungu ekkju að hún þyrfti ekki að hafa áhyggjur næsta árið hið minnsta. Jóhannes ákvað að eftirlifandi eiginkona myndi fá laun mannsins í eitt ár frá andláti hans.“

Forðast græðgi

Þegar Jóhannes stofnaði Bónus ásamt Jóni Ásgeiri syni sínum sagði hann að í rekstri Bónus yrði stefnt á gróða um leið og ætti að forðast græðgi. Um þetta ræddi Jón Ásgeir í þættinum og fór fögrum orðum um föður sinn. Jón Ásgeir sagði:

„Hann predikaði þetta að við skildum ekki fara frá upprunanum að reka fyrirtæki með gróða en ekki græðgi,“ sagði Jón Ásgeir og bætti við: „Hann lifði eftir þessu að viðskipti eru viðskipti aðila að báðir þurfi að báðir að labba frá borðinu sáttir, annars væru það ekki viðskipti.“  

Þegar Sigmundur Ernir spurði Jón Ásgeir um persónuleika föður hans, svaraði hann.

„Hann var bara góður maður, það var bara þannig.“

Sigmundur:Breyskur?

„Já, það var alveg þannig,“ svaraði Jón Ásgeir og bætti við að hann hefði haft sína galla eins og flestir.

Sigmundur: En stærstu kostirnir?

„Skemmtilegur, opinn. Skemmtileg persóna og hafði gaman af lífinu,“ svaraði Jón Ásgeir og sagði að þeir feðgar hefðu verið góðir vinir allt til enda. Í þættinum sést að það tekur nokkuð á Jón Ásgeir að ræða um fráfall föður síns.

Sigmundur: Bar engan skugga þar á?

„Það var mjög sjaldan sem við rifumst,“ svaraði Jón Ásgeir en sagði að þeir gátu tekist á þegar þeir voru ekki sammála um sýn á fyrirtækið eða lífið sjálft.

Sigmundur: Hann dó allt of fljótt.

„Allt of fljótt.“

Sigmundur: Og mamma þín líka. Það er sárt.

„Já, það er bara þannig,“ svaraði Jón Ásgeir. Aðspurður hvort hann óttaðist sjálfur að deyja ungur svaraði hann: „Ég held að það sé óboðlegt að lifa lífinu þannig að þú sért hræddur. Þetta mun gerast á einhverjum tímapunkti, það er bara þannig. Við vitum það. Það er það eina örugga í lífinu.“