„Núna rétt fyrir miðnætti er frekar kyrrlátt veður um mestallt land. Og snemma í fyrramálið verður líka tiltölulega kyrrlátt veður, ekki nema soldið farið að hvessa.“
Þetta skrifaði Illugi Jökulsson um miðnætti í gær. Þar bendir hann á að það fólk sem byggði landið fyrir 150 til 300 árum hefðu nú í morgun, þá bátaformenn ræst sína menn um fjögur í nótt og stefnt sínum áttæringum á sjó löngu áður en færi að birta til að draga fisk í soðið. Illugi rekur atburðarás sem hefði mjög líklega geta átt sér stað:
„ ... og sexæringum sínum og tveggjamannaförum og öðrum smábátum - og karlar og kerlingar myndu sitja í sínum blautu skinnklæðum og vaðmáli að draga sín færi þegar færi að birta og í dagrenningu myndu menn skyndilega sjá kolsvarta blikuna á lofti og fárviðrið sem nú er að nálgast landið úr öllum áttum myndi skella á áður en bátarnir kæmust aftur til strandar, þetta ofsalega veður.“
Þá segir Illugi að lokum:
„Ég get sagt ykkur að í veðri eins og því sem skellur á á morgun myndu tugir, margir tugir, kannski hundruð sjómanna hafa farist á hinum opnu bátum fyrr á tímum.“