Systkinin slógu saman í bók

Það skortir ekki sögurnar í nýjum þætti sem hefur göngu sína á Hringbraut í kvöld, en þar bjóða Linda Blöndal og Sigmundur Ernir til betri stofunnar svo úr verður Sögustund með stórum staf.

Fyrstu gestirnir eru svarfdælsku systkinin frá Jarðbrú, Atli Rúnar, Inga Dóra og Helgi Már Halldórsbörn, eða helftin af afkomendum heiðurshjónanna Ingibjargar og Halldórs Jónssonar úr Svarfaðardalnum eina og sanna, en þau hafa slegið saman í firnamikla bók, Svarfdælasýsl sem hefur að geyma sögur úr sveitinni fögru sem sker sig þvert inn í sjálfan Tröllaskagann svo úr verður einhver fegursti fjallasalur landsins.

Sögustundin hverfist ekki aðeins um bókina sjálfa, heldur ekki síður svarfdælsku sérkennin í tali og tónum - og dyntum alls konar, en jafnt spil og dans Svarfdælinga er með eindæmum og hljómur móðurmálsins með þeim hætti að aðkomufólk glennir augun.

Svo er líka rætt um sumarið þegar kvikmyndin Land og synir var tekin upp í dalnum, en heita má að heimamenn hafi lagt niður búskap í skiptum fyrir liðsinni við gerð myndarinnar sem er gegnheill minnisvarði um lífið í norðlensku sveitinni.

Og loks eru það rómantískar minningar um Húsabakkaskóla, næsta hús við Jarðbrú, en þar vildu Halldórsbörnin auðvitað vera á heimavist eins og önnur ungmenni í sveitinni, þótt aðeins væri nokkurr skref að skokka þangað yfir.

Sögustund byrjar klukkan 21:00 í kvöld.