Sunna spákona spáir sprengingu í Fagradalsfjalli: „Þetta er rétt að byrja“

Sunna Árnadóttir, spákona hjá Sálarrannsóknarfélaginu, segir að tvær nýjar sprungur muni opnast í Geldingadölum á næstunni.

Sunna var gestur í Bítinu á Bylgjunni í morgun þar sem hún var spurð út í hverju hún spái um framhald eldgossins. „Fjallið mun springa. Það kemur sprunga í það,“ segir hún um Fagradalsfjall.

„Þetta er alls ekki búið. Þetta er rétt að byrja. Þetta stendur í tvö til þrjá ár eftir því sem mér hefur verið sýnt.“

Varðandi Suðurstrandarveg segir Sunna að hann fari í sundur.

„Það er smá rifa á milli. Þetta gætu verið göng.“

Var hún svo spurð hvenær Suðurstrandarvegur fer í sundur.

„Það kemur talan þrír.“ Hún sagði að þetta væri ekki nákvæmt, þetta gætu verið þrír dagar eða þrír mánuðir.

Hún segir að enginn mannskaði verði af gosinu. „Það verður samt að halda vel utan um þetta.“ Sunna segir óþarfa að reisa varnargarða. „Það er óþarfi.“

Tekið skal fram að Sunna er ekki jarðfræðingur eða jarðeðlisfræðingur, hennar mat byggir ekki á vísindum. Jarðeðlisfræðingar eru óvissir um hvert framhaldið verður í Geldingadölum, búist er við því að Suðurstrandarvegur fari í sundur á næstunni.