Stundum hittir sigmundur davíð naglann á höfuðið

Stundum hittir Sigmundur Davíð naglann á höfuðið. Í umræðu í Silfrinu áðan um aðskilnað ríkis og kirkju benti hann á hvort rétt væri í leiðinni að aðskilja ríkið og RUV, eða gaf það í skyn réttara sagt.

Það sem er líkt með RUV og þjóðkirkjunni er að þessar stofnanir hafa lögbundnar skyldur umfram aðra á sama markaði auk menningarlegs mikilvægis. Þannig hafa greiðslur úr ríkissjóði verið réttlættar til handa þeim. Munurinn er hins vegar sá að aðskilnaður ríkis og kirkju hefur fyrir löngu farið fram en stuðningur skattgreiðenda við RUV hækkar jafnt og þétt. Ríkið greiðir samkvæmt kirkjujarðasamkomulagi fasta upphæð sem endurgjald fyrir jarðirnar,sem ríkið hefur að vísu ekki staðið við eftir hrun. Með réttu er hægt að segja að það sé vel í látið og sé í raun stuðningur að einhverju leyti við þjóðkirkjuna, eins og stjórnarskráin gerir ráð fyrir að við gerum. En það er miklu lægri upphæð en stuðningur skattgreiðenda við RUV á hverju ári. Má segja að einu tengsl ríkis og kirkju í dag eru að forseti Íslands kemur enn að setningu biskups og vígslubiskupa í embætti, sem er auðvitað bara formgerningur.

Svo má ekki gleyma því í þessum samanburði að þjóðkirkjan gerir talsvert gagn fyrir land og þjóð en RUV virðist einkum vera í því að eyðileggja einstaklinga og fyrirtæki í fullkomlega misheppnaðri rannsóknarblaðamennsku, þar sem fréttamenn eru að glíma við verkefni sem þeir ráða ekki við.

Þótt ég verði seint kallaður trúmaður og verið óánægður með margt hjá kirkjunni mun ég fyrr ganga í hollvinasamtök þjóðkirkjunnar en hollvinasamtök RUV.