Heiðar Sumarliðason og Snæbjörn Brynjarsson völdu Stefán Einar Stefánsson, ritstjóra Viðskiptamoggans, duglegasta blaðamann landsins í útvarpsþætti sínum Eldur og brennisteinn á útvarpsstöðinni X977 í dag. Tilnefndu þeir hann jafnframt sem réttlætisriddara ársins.
Var sakaður um verkfallsbrot
Heiðar og Snæbjörn rifjuðu upp deilur Stefáns Einars og Stefáns Óla Jónssonar, blaðamanns á Vísi, sem gagnrýndi í Twitter-færslu að nafni sinn hjá Morgunblaðinu stæði í verkfallsbrotum. Í stefnu Blaðamannafélags Íslands gegn Árvakri, útgáfufélags Morgunblaðsins og Mbl.is var Stefán sagður hafa ritað fréttir inn á vef Mbl.is í vinnustöðvun blaðamanna.
Stefán Óli sagði í Twitter-færslu að Stefán Einar væri með tvöföld mánaðarlaun almenns blaðamanns og gagnrýndi að fyrrverandi formaður VR virtist fara fremstur í flokki verkfallsbrjóta.
„Hann er náttúrulega alltaf að vinna, þó hann ætli ekki að vinna,“ sögðu félagarnir í Eld og brennistein og sögðu að Stefán væri duglegasti blaðamaður landsins og ætti því launin skilin. „Vinnuálagið er náttúrulega meira því að hann er að vinna á meðan hinir eru að „chilla.““
Ekki illa meint
Þeir vildu ekki meina að illur vilji liggi á bak við meint verkfallsbrot Stefáns Einars, þvert á móti hafi verið að vinna eftir sannfæringu sinni og að hann eigi það skilið að verða tilnefndur sem réttlætisriddari ársins.
„Stefán Einar er líka réttlætisriddari. Hann er að berjast fyrir því sem að honum finnst vera réttlæti,“ segja þeir. „Hann er ekki að koma fram fyrir einhver „sinister“ öfl. Honum bara finnst þetta.“