Starfsfólk pínt inn í pólitískt einelti

Björg Eva Erlensdóttir, fyrrverandi fréttamaður og núverandi stjórnarmaður í Rúv, talar umbúðalaust í pistli sem birst hefur á visir.is.

Í pistlinum ræðir Björg Eva m.a. stóra tölvupóstamálið sem orðið hefur að uppslætti Mogga um Rúv í kjölfar svartrar skýrslu. Það er ekki síst niðurlag pistils hennar sem vekur athygli en þar segir:

„Rekstur Ríkisútvarpsins hefur verið hallalaus síðasta árið. Þess er ekki getið í umræðum um skýrsluna. Skuldir lækka meira en í sögu félagsins, með lóðasölu og húsnæðisleigu. Starfsfólk er pínt áfram inn í vaxandi óvissu, aukið vinnuálag og pólitískt einelti. Skýrsla Eyþórs er sögð afhjúpandi, en hún afhjúpaði ekki annað en einbeittan pólitískan vilja höfunda til að leggja Ríkisútvarpið niður.“

Þarna á Björg við Eyþór Arnalds sem leiddi gerð skýrslunnar. Henni finnst ekki skrýtið að formaður stjórnar Rúv hafi sagt upp:

„Stjórn Ríkisútvarpsins, vön ásökunum um að vera gagnslaus bitlingastjórn flokkanna, stóð saman gegn árás fjárveitingavaldsins á Ríkisútvarpið í fyrra. Í ár var upplýsingum haldið frá henni. Skýrsla Eyþórs var rýnd af öðrum fjölmiðlum, með almannatengslaráðgjafa, áður en stjórn RÚV sá hana. Framhaldið var á sömu leið. Er nema von að stjórnarformaðurinn snúi sér að uppbyggilegri verkefnum? En hvað verður um Ríkisútvarpið?“