Aron Can Gultekin, einn vinsælasti tónlistarmaður landsins, prýðir forsíðu helgarblaðs Fréttblaðsins. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann gefið út fjórar plötur og um síðustu helgi seldi hann upp á þrettán hundruð manna tónleika í Hörpu. Aron á von á barni í mars og er spenntur fyrir nýja hlutverkinu.
„Ég get ekki beðið, er ekkert eðlilega spenntur,“ segir Aron. „Ég veit ekkert hvað ég er að fara út í og segi það í lagi sem ég skrifaði í síðustu viku: Ég veit ekkert hvernig ég ætla að ala þig upp en það kemur í ljós, ég elska ekkert meira en son minn og hann er ekki kominn,“ segir hann.
„Ég veit bara að hann mun fá alla þá ást sem hann á skilið. Frá mér og mömmu sinni, öllum vinum okkar og fjölskyldu, við eigum bæði gott bakland og ég er bara ótrúlega ánægður með það hvernig lífið er að þróast. Er þakklátur fyrir lífið og fagna öllu þessu nýja.“