Þórarinn sagði að framleiðnivöxtur myndi ekki halda í við hækkun meðallauna sem nemur um 10,5 prósent í ár og 8,5 prósent á næsta ári. Þessar hækkanir væru langt umfram markmið um 2,5 prósenta verðbólgu og því aukist verðbólguþrýstingurinn. Þórarinn sagði þetta geta leitt til þess að fyrirtæki hættu að ráða fólk, styttu vinnutíma starfsfólks síns eða segðu jafnvel einhverjum upp.
Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði að unnið væri að aðgerðum til að auka bitið í peningastefnunni og draga úr líkum á því að erlendir fjárfestar myndu gera út á vaxtamunarviðskipti. Már sagði að þetta kynni að verða gert með ákveðinni bindingu en taldi óheppilegt að það yrði gert með skattlagningu. Hann sagði að með þessu mætti freista þess að draga úr því að eignir þeirra í íslenskri mynt byggðust upp. Hann sagði að þetta væri í takt við áætlanir sem menn gerðu um afnám gjaldeyrishafta.
Már sagði að breytingin á verðbólguhorfum væri fyrst og fremst tilkomin vegna mikilla launahækkana og þess hvernig peningastefnan hefði verið notuð til að sporna gegn verðbólgu. Hann sagði að launahækkanirnar væru samt það miklar að aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu dygðu ekki til að koma í veg fyrir að hún hækkaði. Hann boðaði því frekari stýrivaxtahækkanir á næstunni og sagði að það myndi ráðast af aðstæðum hversu hratt það gerðist og hversu mikið.