Skjólveggir og garðhýsi splundruðust

Veðurofsinn sem gekk yfir landið í dag skyldi eftir sig mikla eyðileggingu víða um suðvestanvert landið, en björgunarsveitir hafa sinnt vel á sjötta hundrað beiðnum um hjálp frá því snemma í morgun. Óveðrið olli hvað mestri eyðileggingu í úthverfum höfuðborarsvæðisins, en þar splundruðust heilu skjólveggirnir, garðhýsin og vinnuskúrar, auk þess sem gámar og bílar ultu á hliðina undan verstu hviðunum sem sumar slógu yfir 50 m/3. Þá varð vatnstjón mjög víða á borgarsvæðinu, enda fóru margir vegir og hringtorg á kaf í vatnselg sem flæddi um kjallara og bílahús og olli skemmdum á eignum.


Rafmagn fór víða af um tíma í dag, enda slitnaði hringtengingin um landið í Borgarfirði þar sem veðrið var snælduvitlaust á tímabili eins og heimamenn komast að orði. Alvarlegast er að rafmagnstruflanir gerðu það að verkum að um tíma var ekki hægt að ná sambandi við neyðarþjónustu Almannavarna sem starfsmenn þar líta mjög alvarlegum augum.


Óveðrið gengur niður með kvöldinu, en á miðnætti annað kvöld kemur næstu hvellur, sem mun vera sá 57. frá áramótum, en eins og fram hefur komið í fyrri fréttum á hringbraut.is um veðurlagið þennan veturinn hafa aðeins 16 dagar á árinu verið án stormviðvörunar.