Sjálfstæðismenn og hjörð þeirra í uppnámi

Ég er ekki hissa á því að forystumenn Sjálfstæðisflokksins og hjörð þeirra komist í uppnám og finnist það „óþægilegt“ þegar umsækjendur um alþjóðlega vernd standa frammi fyrir þeim og reyna að tala við þá. Það getur verið erfitt að horfast í augu við þá einstaklinga sem eru þolendur svívirðilegrar og ómannúðlegrar stefnu þeirra í málefnum fólks á flótta.

Það getur verið óþægilegt að horfast í augu við þjáningar þeirra sem sæta engu nema grimmd, einangrun og skepnuskap af hálfu þeirra. Það væri óskandi að dómsmálaráðherra, bæjarstjóri Kópavogs og aðrir áhrifamenn í Sjálfstæðisflokknum hefðu jafn miklar áhyggjur af mannréttindum fólks á flótta, stöðu þeirra og líðan og þeir hafa af fundarsköpum. Þá værum við greinilega í fínum málum varðandi stefnu í málefnum fólks á flótta.

Ég skora á þessa einstaklinga að eiga við okkur samtal um það sem betur má fara hér á landi í málefnum fólks á flótta. Með samtali og samvinnu er nefnilega hægt að gera alveg rosalega mikið gott.