Sjálfstæðisflokkur úr takti við tímann

"Grunngildi Sjálfstæðisflokksins hafa verið vanrækt og hann skortir orðið alþjóðlega hugsun," sagði athafnamaðurinn Þorkell Sigurlaugsson í þættinum Mannamáli á Hringbraut í gær þar sem hann gagnrýndi sinn gamla flokk.


Þorkell sagðist ennþá vera stuðningsmaður flokksins og kvaðst enn vona að flokkurinn tæki sér tak, en hann væri í reynd ekki lengur í takti við þjóð sína. "Hann nær ekki lengur til unga fólksins," benti Þorkell á og sagði það raunar vanda margra annarra flokka, en vandi Sjálfstæðisflokksins væri að hann næði heldur ekki lengur til atvinnulífsins hvað varðaði umræðuna um sjálfstæða peningastefnu í alþjóðlegu samhengi.


Og það er eftir því tekið þegar jafn virtur maður úr viðskiptalífinu og Þorkell Sigurlaugsson talar: "Á sama hátt og það þurfti á sínum tíma að hressa íslenskt atvinnulíf við eftir stöðnunarskeiðið á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar þá þarf að hressa flokkinn við," sagði Þorkell í samtali sínu við Sigmund Erni, en Þorkell tók þátt í endurreisn Eimskipafélags Íslands á sínum tíma og gerði það að stórveldi í atvinnulífinu. "Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að verða áfram sterkur flokkur, sem ég vona að hann verði, þá verður hann að átta sig á þessum breytingum sem þarf að gera í þjóðfélaginu. Það er grundvallaratriði. Annars verður hann bara áfram 20 til 25% flokkur. Það eru margir búnir að yfirgefa flokkinn eins og við vitum - og það þarf fyrir vikið að skerpa á stefnu hans. Flokkurinn hefur sveigt af leið, eða öllu heldur ekki fylgt þjóðinni eftir á vegferð hennar. Forystumenn í stjórnmálum verða auðvitað að fylgja þjóðinni, leiða hana áfram og vera í takti við nútímann."


Hann ræddi einnig áhrif stjórnarsamstarfsins á gamla flokkinn sinn: "Stjórnarflokkarnir hafa komið áleiðis mörgum góðum málum en Sjálfstæðisflokkurinn hefur í því samstarfi hallað sér um of upp að Framsóknarflokknum og líkist honum meira núna en hann hefur gert í langan tíma."


Þáttinn í heild sinni og klippur úr honum má sjá undir sjónvarpsflipanum á hringbraut.is.