Sigurður ingi virðist biðja sigmund davíð um bjarghring

Ýmsir hafa túlkað páskagrein Sigurðar Inga Jóhannssonar í Kjarnanum á þann veg að Framsókn kunni að bregða fæti fyrir þriðja orkupakkann í meðferð málsins á þingi. Það er ekki líklegt. En hitt er staðreynd að Framsókn er í meiri klípu með þetta mál en hinir stjórnarflokkarnir.

Að því er VG varðar er eins með þetta mál og NATÓ. Þau eru á móti í stjórnarandstöðu en  með í ríkisstjórn. Þingflokkur sjálfstæðismanna var klofinn. Málið var hins vegar ekki lagt fram fyrr en utanríkisráðherra hafði tekist með einfaldri en snjallri töfralausn að snúa andstöðuna niður. Bakland Sjálfstæðisflokksins er aftur á móti mjög þungt í skauti.

Ráðherrar Framsóknar hafna innleiðingu í miðstjórn

Klípa Framsóknar er í því fólgin að á miðstjórnarfundi í nóvember samþykkti flokkurinn þá afdráttarlausu stefnu í ljósi fullveldis og þjóðarhagsmuna að óskynsamlegt væri  að innleiða þriðja orkupakkann og því skyldi fá undanþágu frá honum. Ráðherrar og þingmenn flokksins stóðu að þessari samþykkt sem svo umbúðalaust hafnaði innleiðingu.

Miðstjórn Framsóknar fer með æðsta vald í málefnum flokksins á milli flokksþinga. Niðurstaða miðstjórnarfundarins fól ekki í sér leiðbeinandi tilmæli. Hún var skýr og klár flokksstefna.

Þegar búið var að binda hendur uppreisnarþingmanna í Sjálfstæðisflokknum var málið lagt fyrir ríkisstjórn. Ráðherrar Framsóknar gátu þá ekki lengur treyst á þófið í þingflokki sjálfstæðismanna. En umfram allt vildu þeir þó ekki sprengja stjórnarsamstarfið þótt teflt væri um slíkt prinsippmál að það ógnaði fullveldi og þjóðarhagsmunum að mati þeirra sjálfra í miðstjórn.

Ráðherrar Framsóknar samþykkja innleiðingu í ríkisstjórn

Ráðherrarnir völdu því þann kost að samþykkja innleiðinguna í ríkisstjórn. Þegar stjórnarflokkur hefur samþykkt framlagningu þingmála í ríkisstjórn felst í því  pólitísk skuldbinding um að ljá því fylgi við atkvæðagreiðslur í þinginu.   

Ráðherrar og þingmenn Framsóknar hafa því með nokkurra mánaða millibili gert hvort tveggja að hafna innleiðingu þriðja orkupakkans á þeim vettvangi flokksins sem ákveður stefnu hans og að samþykkja innleiðinguna í ríkisstjórn. Og nú blasir atkvæðagreiðsla í þinginu við. Hvað er þá til ráða?

Í páskagreininni hvetur formaður Framsóknar alla þingmenn að vinna samkvæmt samvisku sinni við meðferð málsins. Og hann segir að þeim tíma sé vel varið sem fer í að skapa sátt. Enginn hefur þó spurt hvers vegna ráðherrar Framsóknar reyndu ekki sáttameðferð áður málið var afgreitt í ríkisstjórn.

Í hvorri samþykktinni liggur samviska Framsóknar?

Enginn veit heldur hvar samviska þingmanna Framsóknar liggur í málinu. Má lesa hana út úr því sem þeir samþykktu á miðstjórnarfundinum eða því sem þeir samþykktu í ríkisstjórn?   Þó að utan að komandi hafi tæpar forsendur til að spá í rétt svar má ganga út frá því sem vísu að samþykktin í ríkisstjórn þýði að þingmenn Framsóknar ætla ekki að rugga stjórnarsamstarfinu.  

Formaður Framsóknar veit að hvorki þingmenn VG né Sjálfstæðisflokksins munu taka þátt í að þæfa málið í þinginu. Honum er líka ljóst að stjórnarandstöðuþingmenn Viðreisnar og  Samfylkingar munu ekki hjálpa honum út úr klípunni og þingmenn Pírata eru ekki líklegir til þess heldur.

Bara einn mögulegur bandamaður eftir

Þá er bara einn mögulegur bandamaður eftir: Það er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fyrrum formaður Framsóknar og núverandi formaður Miðflokksins.

Páskagrein Sigurðar Inga Jóhannsonar virkar því eins og ákall til Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Ákall um að Sigmundur Davíð beiti sér af öllu því afli sem hann ræður yfir til þess að stöðva málið í þinginu eða þæfa það svo að  fresta megi því í lengstu lög að þingmenn og ráðherrar Framsóknar þurfi að standa andspænis pólitísku loforði í ríkisstjórn um að greiða atkvæði með innleiðingu þvert á samþykkt miðstjórnar og þeirra sjálfra á þeim vettvangi.

Með öðrum orðum: Sigurður Ingi treður marvaðann og virðist biðja Sigmund Davíð að kasta til sín bjarghring.  Þetta er alveg ný staða. Hún hefur ekki komið upp áður eftir klofninginn.