Sigmar Guðmundsson: „Í kringum 25 ára aldurinn rakst ég á vegg og fór í meðferð inn á Vog. Síðan þá hef ég vitað að ég sé alkóhólisti.“

Sigmar Guðmundsson ákvað að kveðja Ríkisútvarpið eftir aldarfjórðung og stefna á Alþingi. Sjómannssonurinn úr Garðabæ sem varð ræðusnillingur hefur glímt við drauga áfengissýki og misnotkunar, en veit nú ekkert betra en að hlaupa úti í náttúrunni.

Rakst á vegg

Sigmar hefur háð sína baráttu við alkóhólisma og farið í nokkrar áfengismeðferðir. Þegar hann lítur til baka sér hann að áfengið fór aldrei vel í hann, ekki einu sinni til að byrja með.

„Upp úr tvítugu fann ég fyrir því að þetta var orðið eitthvað meira en ásókn í hefðbundið djamm. Helgarnar voru farnar að lengjast og vanlíðanin að aukast,“ segir Sigmar um það hvenær hann áttaði sig á því að áfengi gæti verið vandamál. „Áfengið var farið að stjórna mér og hafa áhrif á frammistöðu mína í vinnu og skóla. Í kringum 25 ára aldurinn rakst ég á vegg og fór í meðferð inn á Vog. Síðan þá hef ég vitað að ég sé alkóhólisti.“

Inni á Vogi fékk Sigmar fræðslu um sjúkdóminn og hann gat strax speglað alla sína hegðun í honum. Hann sá í fyrsta sinn að hann væri ekki einn að burðast með þær erfiðu tilfinningar sem fylgja alkóhólisma heldur var hann staddur í fullum sal af fólki sem var að glíma við það sama.

„Flest árin síðan hef ég verið edrú en það hafa komið föll og hliðarskref, en sem betur fer staðið stutt yfir,“ segir Sigmar. „Sjúkdómurinn hjá mér er þó þannig að þegar ég hef fallið er það alvarlegt mál og kallar á inngrip.“

Síðasta fall kom fyrir sjö árum og reyndist Sigmari nokkuð erfitt að komast á lappir aftur. En fyrir það hafði hann verið edrú í átta ár.

„Mér leið mjög illa og fannst ég vera að bregðast bæði sjálfum mér og fólki í kringum mig. Ég bar mikla ábyrgð í vinnunni og var með ungt barn í nýju sambandi, auk eldri barna úr fyrra sambandi,“ segir Sigmar. „Mér var bent á að ég ætti þá að kafa svolítið dýpra en ég hafði gert. Og það reyndist eitt mesta gæfuspor lífs míns.“

Misnotkun markaði djúp spor

Við tók sálfræðimeðferð hjá þerapista sem kafaði með Sigmari ofan í æsku hans. Hófst þá verkefnið að vinna úr þeim áföllum sem Sigmar varð fyrir sem barn og hefur áður greint opinberlega frá. En þegar hann var tíu ára gamall varð hann fyrir misnotkun af hálfu manns sem tengdist skólastarfinu.

„Allt í einu fór ég að skilja samhengið í lífinu mínu,“ segir Sigmar um afrakstur þessarar sálfræðimeðferðar. „Það er skrítið að vera orðinn miðaldra maður og hafa ekki tengt þetta tvennt saman fyrr. Að áfall sem maður verður fyrir sem barn og býr til sársauka, reiði og tilfinningar sem maður skilur ekki geti gert mann móttækilegan fyrir slökuninni sem fylgir því að drekka. Áfengið verður lausn á þeim óróleika sem heilinn er í. En sú lausn er vitaskuld aðeins tímabundin og hleður ofan á sig vanlíðan. Og maður festist í einhverjum vítahring og kann ekki að díla við hlutina öðruvísi en að deyfa sig.“

Sigmar sagði engum frá misnotkuninni fyrr en löngu síðar. Hann býst þó við að foreldrar og fleiri hafi strax tekið eftir hegðunarbreytingum hjá honum því hann varð mjög ringlaður, dró sig inn í skelina og síðar braust út reiði og alls kyns mótþrói.

„Ég sagði fyrst frá þessu í meðferð. Mér fannst ég fá svo skrýtin viðbrögð og leið svo illa að tala um þetta að ég ákvað að gera það ekki meir,“ segir Sigmar.

Sem fréttamaður hefur Sigmar ítrekað fjallað um kynferðisofbeldi og eðlilega reikaði hugurinn að hans eigin reynslu þá. Taldi hann þá ranglega að þessi reynsla hefði ekki markað djúp spor og hann þyrfti ekki að tala um hana sjálfur. „Sennilega var það varnarmekanismi. Sem er svo skrýtið þar sem ég veit, sem fjölmiðlamaður, hversu gott það er fyrir þolendur að opna sig um ofbeldi, fá góð viðbrögð og hreyfa við umræðunni. Ég hélt ég væri sterkari en aðrir í sömu stöðu sem var auðvitað bara sjálfsblekking.“

Sigmar segist ekki hengja alla þá ógæfu sem hann hefur orðið fyrir eingöngu á misnotkunina. Föllin hafa komið þegar hann hefur misst augun af boltanum og ekki sinnt þeim einföldu hlutum sem óvirkir alkar þurfa að gera. En við ofbeldið brast engu að síður eitthvað í lífi hans sem hefur haft mikil áhrif á hann allar götur síðan. Undanfarin ár hefur hann hins vegar unnið markvisst í þessu áfalli.

Eitt hentar ekki öllum

Að mati Sigmars eru áfengis- og fíknisjúkdómar alvarlegasta heilbrigðisógnin sem blasir við þjóðinni. Þó að skilningur á þeim hafi aukist sé enn þá á brattann að sækja.

„Við sáum það í umræðunni um afglæpavæðingarfrumvarpið að hluti þjóðarinnar skilur ekki að þetta sé sjúkdómur. Telja frekar að besta lausnin sé að beita refsistefnu og gera fólk að glæpamönnum fremur en að mæta þeim með faðminn opinn og hjálpa,“ segir hann nokkuð heitt í hamsi.

Í hvert sinn sem einhver falli fyrir áfengi eða fíkniefnum hafi það mikil áhrif á maka, börn, foreldra, systkini, vinnufélaga og jafnvel fleiri. Heilt samfélag í kringum einstaklinginn verði sjúkt. Þessu fylgi einnig mikill kostnaður í heilbrigðiskerfinu, félagslega kerfinu og dómskerfinu. Þá eru ótalin dauðsföll eða örkuml, annað hvort vegna slysa, ofneyslu eða sjálfsvíga.

„Það er enginn sjúkdómur sem hefur jafn eyðandi áhrif. Þegar einhver greinist með krabbamein leggjast allir á eitt. En þegar einhver greinist með alkóhólisma getur verið að hann hafi brennt allar brýr að baki sér,“ segir Sigmar. „Þá getur reynst erfitt að biðja um og fá hjálp, oft með skelfilegum afleiðingum. Ég tel að meðferðarúrræði þurfi að vera mörg og mismunandi því að eitt hentar ekki öllum. Veikur alki getur verið svo forskrúfaður að hann er búinn að bíta það í sig að fara ekki inn á Vog til dæmis. Sú leið hentaði mér mjög vel, en maður verður að bera virðingu fyrir því að það hentar ekki öllum.“

Að mati Sigmars eru áfengis- og fíknisjúkdómar alvarlegasta heilbrigðisógnin sem blasir við þjóðinni.
Mynd/Heiða Helgadóttir

Viðtalið í heild sinni má lesa á vef Fréttablaðsins