Siðir

Á morgun, páska­­dag, minnast kristnir menn um tvö þúsund ára gamalla at­burða þegar Jesús, sem dáið hafði á krossinum, reis upp frá dauða sínum. Sigur lífsins er inn­­tak þeirrar sögu sem á alltaf við en kannski sér­­stak­­lega nú þegar við glímum við tíma­bundna ógn sem fáu eirir og ó­­þarft að rekja þau ó­­­sköp öll.

Páskar eru því að kristnum sið gleði- og sigur­há­­tíð og það er sannar­­lega til­­efni til að gleðjast á þessum páskum sem fyrr, þó að sú gleði verði á margan hátt frá­brugðin því sem menn áður þekktu.

Það er ýmis­­legt við siði tengda páskum sem markar líf okkar. Í kristin­­fræðslu í grunn­­skóla lærðu þeir sem vaxnir eru nokkuð úr grasi, að á pálma­sunnu­­dag sé þess minnst að Jesús reið inn í Jerúsalem og var fagnað sem konungi. Fólkið breiddi klæði sín á götur og veifaði pálma­­greinum.

Slíkan sess hafði hann tæpri viku fyrir dauða sinn. Það átti þó eftir að breytast hratt og á föstu­­daginn langa var svo komið að hann var festur á kross þar sem hann beið dauða síns. Sannar­­lega harm­ræn fram­­vinda, enda var hér á landi til siðs að allir menn skyldu halda kyrru fyrir og flestar bjargir bannaðar. Verslanir lokaðar og sam­komu­hald fremur fá­brotið. Á sumum heimilum var há­reisti illa séð sem og ærsl og leikara­­skapur, sem fallið gat ung­viðinu þungt. Þetta er nú nokkuð breytt. En allt átti þetta sinn þátt í því að páska­­deginum var sér­­stak­­lega fagnað með súkku­laði­áti og margs kyns kræsingum.

En hvaða erindi á þessi saga páskanna og þeir at­burðir sem hún lýsir við menn á fyrri hluta tuttugustu og fyrstu aldar? Er ekki sagan af Jesú bara upp­­­spuni og skáld­­skapur?

Það getur vel verið. En skiptir það ein­hverju máli? Er trúin á Jesú Krist og inn­­tak sögu hans ekki fremur fallin til þess að gera líf okkar manna hér á jörðu bæri­­legra en annars væri?

Það er al­þekkt að allt má leggja út á versta veg og það eru ýmis ó­­hæfu­­verk sem þrifist hafa í skjóli trúar og siða, hvort sem það er kristin trú eða önnur. Það er sorg­­legt.

En jafn­vel þótt menn finni ekki fót­­festu í trú þá er frá­­sögn Biblíunnar af at­burðum fyrir og um páska fyrir tvö þúsund árum, saga af þáttum í mann­­legu eðli, um laun­ráð og fals sem leiddi til kross­­festingarinnar og saga vonar um sigur lífsins á dauðanum. Þetta þarf ekki endi­­lega að hafa gerst til þess að við njótum sögunnar.

Þarf að liggja fyrir óræk sönnun um að at­burðir hafi gerst svo vioð getum haft gagn af boð­­skap sögu?
Þúsundir manna fara á hverju ári á Njálu­­slóðir, svið sögunnar um Njál og Gunnar. En er sagan sönn? Það skiptir ekki máli. Við förum samt á vett­vang til að sjá fyrir okkur hvernig at­burðirnir sem lýst er gengu fyrir sig, sannir eða lognir.

Sagan af síðustu ævi­­dögum Jesú og upp­­­risu hans á erindi við okkur öll, óháð því hvort við trúum eða ekki eða hvort við teljum okkur hafa full­­nægjandi sannanir fyrir því að frá­­sögnin sé sönn. Njótum hennar.


Gleði­­lega páska.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu þar sem höfundur er ritstjóri.