Síð­ast­a mynd­in sem John Snorr­i tók áður en hann lést

Fjall­göngu­maðurinn John Snorri fórst við hetju­lega för á fjallinu K2 í febrúar á­samt Juan Pablo Mohr og Ali Sadpara. Leitar­menn fundu ný­lega lík fjall­göngu­garpanna þriggja og meðal þess sem fannst er GoPro mynda­vél Johns Snorra sem inni­heldur síðustu myndina sem hann tók áður en hann lést.

Kvik­mynda­gerðar­maðurinn og fjall­göngu­maðurinn Elia Saika­ly greindi frá þessu á Face­book-síðu sinni í dag og birti ramma úr síðasta myndbandinu sem tekið var á mynda­vél Johns Snorra. Elia er einn þeirra sem verið í leitar­hópnum á K2 undan­farið.

Myndin er tekin niður á við og sýnir fót klæddan í gular fjall­göngu­buxur og fjall­göngu­skó og það sem virðist vera vettlinga­klædda fingur er halda á mynda­vélinni. Þá glittir í snævi þakta jörðina fyrir neðan og öryggis­bandið sem fjall­göngu­kapparnir hafa fylgt á leið þeirra upp fjallið K2.

Elia skrifaði í færslu við myndina:

„Þetta var ó­trú­lega hættu­leg leit rétt fyrir neðan 8300 metra hæð. John Snorri var hæstur hinna þriggja fjall­göngu­manna, festur við K2 vetrar-öryggis­línuna sem var sett upp af nepölskum sjerpum. John, Ali og JP voru allir á niður­leið. Ali Sadpara var litlu neðar og Juan Pablo var í tölu­verðri fjar­lægð ná­lægt fjórðu tjald­búðum.“

Rammi úr myndbandi frá GoPro myndavél Johns Snorra.

Elia segist hafa verið á kvik­mynda­vélinni og tekið upp þegar Sajid Sadpara, sonur Ali Sadpara, leitaði í vösum Johns Snorra að fjórum hlutum; Garmin GPS tæki, gervi­hnatta­síma, Sam­sung snjall­síma og GoPro mynda­vél.

„Brekkan var í 75 til 80 gráðu halla. Ein röng hreyfing og þetta hefði verið búið. Sajid eyddi rúmum 15 mínútum í að leita í jakka, vösum og stíg­vélum Johns eftir hinum mikil­vægu hlutum. Á einum tíma­punkti tók hann út hnífinn sinn og byrjaði að skera í sundur föt Johns. Þú getur ekki í­myndað þér hversu erfitt það er að færa til og leita á mann­eskju eftir að hún hefur komist yfir 8000 metra hæð. Ég tók upp fjaðrir sem flugu upp þegar hann tók sigri­hrósandi upp mikil­vægasta hlutinn: GoPro mynda­vélina. Hvað myndi hún sýna?,“ skrifar Elia.

Hann segir mynda­vélina vera einu mynd­rænu upp­lýsingar um síðustu andar­tök Johns Snorra. Þá sé ein mynd á vélinni sem sé skemmd og því ekki hægt að skoða hana, en það skipti sköpum að endur­heimta hana. Myndin er skráð með vit­lausri dag­setningu frá 7. febrúar 2019.

„Hvað sjáum við? Liturinn á reipinu er mjög mikil­vægt smá­at­riði. Hinir djörfu nepölsku sjerpar sem klifu K2 að vetri til myndu þekkja þetta reipi þar sem þeir komu því fyrir. En hvar er þetta? Hversu ná­lægt tindinum? Getur GoPro 360 mynda­vélin sýnt okkur GPS stað­setningu fjall­göngu­mannanna? Hvað annað má læra frá þessari mynd? Þótt ó­trú­legt megi virðast þá er ekki hægt að opna hana með neinum þeirra tækja sem við erum með, þar með talið GoPro 360 appinu.“

Elia segir mörgum spurningum ó­svarað og ljóst að rann­sóknin á hinstu för þeirra Johns Snorra, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr er ekki lokið enn.