Fjallgöngumaðurinn John Snorri fórst við hetjulega för á fjallinu K2 í febrúar ásamt Juan Pablo Mohr og Ali Sadpara. Leitarmenn fundu nýlega lík fjallgöngugarpanna þriggja og meðal þess sem fannst er GoPro myndavél Johns Snorra sem inniheldur síðustu myndina sem hann tók áður en hann lést.
Kvikmyndagerðarmaðurinn og fjallgöngumaðurinn Elia Saikaly greindi frá þessu á Facebook-síðu sinni í dag og birti ramma úr síðasta myndbandinu sem tekið var á myndavél Johns Snorra. Elia er einn þeirra sem verið í leitarhópnum á K2 undanfarið.
Myndin er tekin niður á við og sýnir fót klæddan í gular fjallgöngubuxur og fjallgönguskó og það sem virðist vera vettlingaklædda fingur er halda á myndavélinni. Þá glittir í snævi þakta jörðina fyrir neðan og öryggisbandið sem fjallgöngukapparnir hafa fylgt á leið þeirra upp fjallið K2.
Elia skrifaði í færslu við myndina:
„Þetta var ótrúlega hættuleg leit rétt fyrir neðan 8300 metra hæð. John Snorri var hæstur hinna þriggja fjallgöngumanna, festur við K2 vetrar-öryggislínuna sem var sett upp af nepölskum sjerpum. John, Ali og JP voru allir á niðurleið. Ali Sadpara var litlu neðar og Juan Pablo var í töluverðri fjarlægð nálægt fjórðu tjaldbúðum.“

Elia segist hafa verið á kvikmyndavélinni og tekið upp þegar Sajid Sadpara, sonur Ali Sadpara, leitaði í vösum Johns Snorra að fjórum hlutum; Garmin GPS tæki, gervihnattasíma, Samsung snjallsíma og GoPro myndavél.
„Brekkan var í 75 til 80 gráðu halla. Ein röng hreyfing og þetta hefði verið búið. Sajid eyddi rúmum 15 mínútum í að leita í jakka, vösum og stígvélum Johns eftir hinum mikilvægu hlutum. Á einum tímapunkti tók hann út hnífinn sinn og byrjaði að skera í sundur föt Johns. Þú getur ekki ímyndað þér hversu erfitt það er að færa til og leita á manneskju eftir að hún hefur komist yfir 8000 metra hæð. Ég tók upp fjaðrir sem flugu upp þegar hann tók sigrihrósandi upp mikilvægasta hlutinn: GoPro myndavélina. Hvað myndi hún sýna?,“ skrifar Elia.
Hann segir myndavélina vera einu myndrænu upplýsingar um síðustu andartök Johns Snorra. Þá sé ein mynd á vélinni sem sé skemmd og því ekki hægt að skoða hana, en það skipti sköpum að endurheimta hana. Myndin er skráð með vitlausri dagsetningu frá 7. febrúar 2019.
„Hvað sjáum við? Liturinn á reipinu er mjög mikilvægt smáatriði. Hinir djörfu nepölsku sjerpar sem klifu K2 að vetri til myndu þekkja þetta reipi þar sem þeir komu því fyrir. En hvar er þetta? Hversu nálægt tindinum? Getur GoPro 360 myndavélin sýnt okkur GPS staðsetningu fjallgöngumannanna? Hvað annað má læra frá þessari mynd? Þótt ótrúlegt megi virðast þá er ekki hægt að opna hana með neinum þeirra tækja sem við erum með, þar með talið GoPro 360 appinu.“
Elia segir mörgum spurningum ósvarað og ljóst að rannsóknin á hinstu för þeirra Johns Snorra, Ali Sadpara og Juan Pablo Mohr er ekki lokið enn.