Sú síunga söngkona sem Svanhildur Jakobsdóttir mætti galvösk í viðtalsþátt Sigmundar Ernis, Mannamál á sunnudagskvöld og fór þar yfir viðburðaríka ævi sína allt frá fyrstu æskudögum þegar hún var að átta sig á því að hún var föðurlaus.
Viðtalið má nálgast hér á hringbraut.is í heild sinni, en sannarlega ætti engum að leiðast að horfa á líflegt samtal þeirra Svanhildar og Sigmundar Ernis.
Faðir Svanhildar fórst í hafi þegar hún var á fimmta ári og hún man vel eftir bróður sínum, fjórum árum eldri sem byrjaði að stama vegna áfallsins sem setti svip sinn á móður hennar og börnin tvö sem tóku sig upp og fluttu frá Reykjavík til Borgarness eftir missinn mikla.
Svanhildur lýsir því af hispursleysi þegar hún kynntist tónlistarmanninum Ólafi Gauk þegar hún var enn á táningsaldri og þau felldu hugi saman, en tíu ára aldursmunum er á þeim. Samband þeirra varð afar umtalað og vakti jafnvel hneykslan eins og Svanhildur lýsir af einlægni í viðtalinu við Sigmund Erni sem á köflum er mjög opinskátt, enda Svanhildur alls ófeimin að segja frá sér og sínum.
Hún ræðir árin sín á sviði, drykkjuskapinn í Sextett Ólafs Gauks þar sem trommarinn átti það til að gleyma taktinum í miðju lagi - og hvernig smám saman sveif á mannskapinn úti í sal sem iðulega endaði með hjónarifrildi og miður skemmtilegu útliti ráðsettra eiginkvenna.
Svanhildur minnist Rúnars Gunnarssonar, söngfélaga síns frá þessum árum, en hann fyrirfór sér í þann mund sem hljómsveitin var að halda utan til Þýskalands og fékk Villa Vill til að hlaupa í skarð þessa mikla meistara sem Rúnar var, en hann var helstur töffara i tónlistinni á þessum tíma, þjóðþekktur eftir veru sína í Dátum og sló í gegn með sextettnum, en glímdi við alvarlegt þunglyndi og ranghugmyndir meðfram söng sínum og spilamennsku.
Loks ræðir Svanhildur um dóttur sína, Önnu Mjöll og umtalað samband hennar við auðkýfinginn Cal sem hún giftist þegar hann var um nírætt, en Svanhildi sárnaði mjög það illa umtal sem byrjaði um dóttur hennar í kjölfar samtalsins.
Mannamál eru frumsýnd öll sunnudagskvöld á Hringbraut.