Samherji hagnast um tæpa 14 milljarða

Hagnaður útgerðarfyrirtækisins Samherja í fyrra 2015 var 13,9 milljarðar króna. Samherji og dótturfélög eru með rekstur í 12 löndum og gera upp í átta myntum en rúmur helmingur af starfsemi Samherja er utanlands.

Lagt er til að arður verði greiddur til hluthafa sem nemi 10 prósent af hagnaði félagsins eða um 1,4 milljörðum króna.

Í tilkynningu í dag kemur fram að alls voru rekstrartekjur Samherja um 84 milljarðar króna í fyrra og hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi numið tæpum 20 milljörðum króna, samanborið við 16,4 milljarða árið á undan. Betri afkoma skýrist af velgengi í erlendri starfsemi.

Skuldbingar vegna fjárfestinga hljóða upp á 30 milljarða og greiddi Samherji skatta upp á 4,3 milljarða króna á Íslandi í fyrra auk þess sem tekjuskattur starfsmanna nam 2,2 milljörðum á síðasta ári.