Salóme hjá klak lokaði nasdaq í gær

Leiðandi aðilar í sprotasamfélaginu á Norðurlöndunum, með Salóme Guðmundsdóttur, framkvæmdastjóra Klak Innovit í fararbroddi, lokuðu hlutabréfamarkaði Nasdaq í New York með bjölluhringingu í gærdag.

“Þetta er í fyrsta sinn sem við komum öll saman á einn stað með formlegum hætti, en ferðin til New York var liður í því að styrkja enn frekar samtarfið okkar á milli og vekja athygli á norrænu sprotasenunni á austurströnd Bandaríkjanna,” segir Salóme á heimasíðu FKA, Félags kvenna í atvinnulífinu í dag.

Með í för voru tvö sprotafyrirtæki frá hverju landi sem fengu tækifæri til að kynna sig fyrir fjárfestum og fjölmiðlum í New York. Fyrir hönd Íslands fóru Sesselja Vilhjálmsdóttir, stofnandi TagPlay og Diðrik Steinsson, meðstofnandi og framvæmdastjóri Breakroom.

 

Tilkomu bjölluhringingarinnar má rekja til þeirrar staðreyndar að Norðurlöndin hafa hlutfallslega getið af sér flest milljarða dala fyrirtæki í heimi miðað við höfðatölu fyrir utan Silicon Valley. Fjárfestingar sjóða í norrænum sprotafyrirtækjum á fyrstu sex mánuðum ársins námu yfir 1 milljarði dala sem er met, en áætlað er að sú upphæð verði um 1,5 milljarðar dala í árslok 2015.

Að sögn Salóme eru augu alþjóðasamfélagsins á Norðurlöndunum, en 25% af fjárfestingu síðasta árs kom frá Bandaríkjunum.