Gallup mældi fylgi við flokka frá 30. apríl til 28. maí. Fylgið hefur nokkuð breyst frá fyrra mánuði. Fylgi Framsóknarflokksins hefur minnkað jafn og þétt á kjörtímabilinu. Nú mælist hann með 8,9% fylgi og hefur ekki mælst með minna fylgi síðan Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók við formennsku í flokknum í byrjun árs 2009. Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 23% og Samfylkingin 12,4%. Vinstri græn mælast með 9,8%, Björt framtíð með 7,4% en Píratar fara enn með himinskautum og hafa aldrei mælst með meira fylgi eða 34,1%. Það er meira en samanlagt fylgi stjórnarflokkanna tveggja. 4,3% segjast myndu kjósa aðra flokka.
Tæplega þrjátíu og eitt prósent lýsa yfir stuðningi við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og hefur stuðningurinn ekki mælst jafn lítill á kjörtímabilinu.
Yrðu þetta niðurstöður kosninga skiptust þingmenn þannig milli flokka að Píratar fengju 24 þingmenn, Sjálfstæðisflokkurinn 15, Samfylkingin 8 og Vinstri græn 6 en Framsóknarflokkur og Björt framtíð fengju hvor sína 5 þingmenn.
Fréttastofa RÚV fékk Gallup til að reikna út fylgi við flokka í kjördæmum. Þær upplýsingar eru birtar með þeim fyrirvara að þar sem svörin eru mun færri en í könnuninni á landsvísu eru vikmörkin hærri. Píratar mælast samkvæmt þeim forsendum stærstir í öllum kjördæmum nema norðvesturkjördæmi og eru þar af langstærstir í höfuðborginni þar sem þeir mælast með 40,3%, Sjálfstæðismenn með 19,2% en Samfylkingin með 15,1%. 9,9% borgarbúa myndu kjósa Vinstri græn, 6,7% Bjarta framtíð og 4,4% Framsóknarflokkinn. Samanlagt fylgi ríkisstjórnarflokkanna í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur er um 23%.