Óttinn við valdið

Benedikt Bogason hæstaréttardómari treystir sér ekki til að ræða sjálfur við mig um efnisatriði í máli hans gegn mér, þar sem ég var sýknaður bæði í héraði og Landsrétti. Þetta gerðist þó að Benedikt sé sérstakur valdsmaður yfir dómstólum verandi sýslumaður dómstóla, eins og það er nefnt. Dómararnir stóðust ekki að öllu leyti þann þrýsting sem af þessu stafaði, því þeir slepptu honum við að greiða mér kostnaðinn sem ég hef haft af því að verjast þessu brölti hans. Þeir sem vinna við rekstur dómsmála undra sig á þessu enda í hróplegri andstöðu við það sem tíðkast í þessu efni.

Benedikt sendir lögmann sinn Vilhjálm H. Vilhjálmsson fram á völlinn til að svara mér. Samt koma ekki fram, frekar en fyrr, neinar efnislegar athugasemdir um það sem ég segi í bók minni, þegar ég nota orðið „dómsmorð“ um dóminn sem þar er fjallað um. Ætli Vilhjálmur sé til dæmis sammála því að dæma megi fyrir annað en ákært er fyrir? Eða að dómari sem tapaði stórum fjárhæðum við fall Landsbankans hafi ekki verið hæfur til að dæma í málinu? Í grein minni sem birtist í Morgunblaðinu s.l. mánudag eru efnisatriðin sem um ræðir talin upp. Af hverju ætli lögmaður dómarans tali ekkert um þau? Ræður hann ekki við það? Það eru reyndar einkenni á samtölum við mig um bókarkaflann að tala aldrei um það sem máli skiptir.

Benedikt stefndi mér fyrir meiðyrði, þó að ljóst hafi verið af dómaframkvæmd um margra ára skeið, bæði hér heima og fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu, að ummæli mín voru fjarri því að geta talist meiðyrði í skilningi laga. Það var eins og hæstaréttardómarinn kynni engin skil á þessu. Hann var búinn að stefna mér á fjórða degi eftir útkomu bókar minnar og hann lýsti ákvörðun um áfrýjun héraðsdóms sama dag og dómurinn gekk. Líklega hefur hann þá ekki einu sinni verið búinn að lesa forsendur dómsins. Í vörnum mínum fyrir dómi var sýnt fram á tilefnisleysi málsóknarinnar bæði fyrir héraðsdómi og Landsrétti. Á báðum dómstigum var fallist á málflutning minn í öllum atriðum sem máli skiptu og ég sýknaður. Mér var hins vegar ekki tildæmdur málskostnaður, þó að slíkt sé ávallt gert í tilvikum þar sem málsókn telst án nægilegs tilefnis.

Í lögum er að finna heimild til að fella niður málskostnað ef „veruleg vafaatriði“ eru í máli. Þau voru engin í þessu máli. Menn ættu að geta gert sér í hugarlund hvernig dómur hefði gengið ef svo hefði verið. Það þýðir því ekkert fyrir Vilhjálm lögmann að telja fjölda dóma, þar sem kostnaður hefur ekki verið dæmdur milli aðila á grundvelli þessarar heimildar í lögum. Það dugar honum heldur ekki að endurbirta ummælin í forsendum dóms Landsréttar um að ég hafi hoggið nálægt mörkum tjáningarfrelsis mínu. Þau orð eru alveg óréttlætanleg og eru sýnilega notuð til að réttlæta ákvörðunina um að fella niður kostnaðinn.

Svo er í tilefni af vörnum Vilhjálms, ástæða til að taka fram að ég hef gagnrýnt meðferð dómsvaldsins, þegar ég tel hafa verið ástæðu til. Það er í langflestum tilvikum í málum, þar sem ég hef sjálfur ekki átt nokkurn hlut að máli. Tilgangurinn með málsókn hæstaréttardómarans var sýnilega sú að hræða menn frá slíkri gagnrýni. Þó að þetta hafi reynst vera klámhögg er það samt staðreynd að flestir lögfræðingar í þessu landi eru logandi hræddir við að halla orðinu á þessar valdamiklu stofnanir, þó að tilefnin séu allt of mörg. Þeir óttast að verða látnir sjálfir finna fyrir því. Kannski er þetta umhverfi óttans það versta í þessu samfélagi lögfræðinganna. Sérstaklega þegar haft er í huga að dómstólar fá ekki annað aðhald en það sem felst í umfjöllun á opinberum vettvangi. Því ekki verða þeir svo glatt reknir, dómararnir.