„Við fengum þær leiðinlegu fréttir að einhverjir hafi fallið fyrir svindli sem gengur á netinu í okkar nafni fundum okkur því knúin til þess að senda út tilkynningu um málið.“ Þetta kemur fram í tilkynningu sem raftækjaverslunin Elko sendi frá sér í dag.
Netsvindlararnir svindla kreditkortaupplýsingar úr fólki með því að sannfæra það um að það hafi unnið farsíma í leik sem sé á vegum Elko. Það eina sem fólk þarf að gera til að fá vinninginn í hendurnar sé að senda þeim kreditkortanúmerið sitt svo hægt sé að greiða sendingarkostnaðinn á vinningnum. Fer greiðslan fram í evrum í gegnum erlenda heimasíðu.
„Við höfum fengið fréttir af því að einhverjir óprúttnir aðilar séu að svíkja kreditkortaupplýsingar af fólki í okkar nafni. Svikin fara þannig fram að viðkomandi er talin trú um að hann/hún hafi unnið farsíma og þurfti að greiða sendingarkostnað í evrum í gegnum erlent vefsvæði til að taka þátt í leiknum eða fá vinninginn afhentan. Þessi leikur er EKKI á okkar vegum!“
Netsvindl hefur aukist gífurlega undanfarin ár á Íslandi og virðast svindlararnir alltaf vera koma með betri leiðir til að svíkja fjármuni út úr fólki á netinu. Lögreglan hvetur alla þá sem hafa orðið fyrir brotum af þessu tagi að tilkynna þau til sín.