Opnar hm fataverslun á íslandi?

Fjölmargar fréttir hafa verið sagðar af áhuga sænska fatarisans H&M að opna búð á Íslandi. DV slær því upp á forsíðu í dag að blaðið hafi heimildir um að búðir verði senn opnaðar í Reykjavík. Tvær búðir séu fyrirhugaðar; í miðbænum og Smáralind - Vörumerkin H&M, Cos og & Other Stories verði í boði.

\"Samkvæmt traustum heimildum DV hófust formlegar viðræður milli Regins fasteignafélags og sænska risans H&M Hennes & Mauritz AB í síðustu viku. Óformlegar viðræður hafa átt sér stað í tæpt ár en báðir aðilar hafa þvertekið fyrir að staðfesta slíkar fréttir. Samkvæmt heimildum DV er málið nú komið á það stig að hægt sé að slá því föstu að verslunarrisinn muni opna verslanir á höfuðborgarsvæðinu,\" segir í frétt DV. 
 

H&M var stofnað 1947 sem kvenfataverslun undir nafninu Hennes en breytt í Hennes & Mauritz síðar. Íslenskir ferðalangar hafa farið út fyrir landsteinana gagngert til að kaupa ódýr föt í H&M, snúa aftur með heilu ferðatöskurnar fullar af fötum.

Stemnning er á samfélagsmiðlum vegna frétta af opnun H&M hér á landi í dag en þó hefur verið á það bent að ein ástæða hins lága vöruverðs H&M sé að nánast sé stunduð vinnuþrælkun við að framleiða fötin.