Vaxandi kvíði mælist meðal háskólakennara samkvæmt nýrri rannsókn. Ísland er þar ekki undanskilið. Má að hluta kenna um æ harðari samkeppni sem byggist á aukinni áherslu á frjálshyggju í menntakerfinu. Einn liður þess er svokallað kennaramat en við marga háskóla ráða nemendur nokkru um hvernig kennurum vegnar í starfi með því að gefa þeim einkunn. Áður gáfu kennarar nemendum einkunn. Þeir gera það enn - en í seinni tíð er nánast regla við háskóla að nemendur gefi kennurum einnig einkunn og er talið eitta af því sem skapað geti kvíða hjá akademískum starfsmönnum.
Kynning verður í næsta mánuði á grein um rannsókn sem nefnist Producing Anxiety in the Neoliberal University. Greinin verður kynnt bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri. Yfirskriftin er: Vinnumat á villigötum? - Háskólakennarar á tímum nýfrjálshyggju.
Doktor Edvard Huijbens, einn þriggja greinarhöfunda, segir í samtali við Hringbraut að kvíði fari sannarlega vaxandi meðal háskólakennara skv. rannsókninni. Spyrja megi hvort hann sé innbyggður í stjórntækin. \"Kvíðinn var það fyrsta sem við sáum úr nokkrum tugum viðtala sem við tókum í Hollandi, Bretlandi, Danmörku, Svíþjóð og Íslandi. Yngra starfsfólk finnur fremur fyrir kvíðanum en þeir eldri.\"
Edward segir að skaflinn sem þurfi að komast yfir til að kennarar upplifi starfsöryggi virðist alltaf vera að hækka á sama tíma og öryggið handan hans sé að minnka. \"Þetta veldur miklu álagi og þá ekki síst hjá þeim sem eru að hefja störf. Svo er annað að karlar ná oft meiri árangri út þessu kerfi sem krefst fjarvista frá heimili og fjölskyldu. Kerfið veldur því ekki síst kvíða hjá ungum starfsmönnum og hrekur konur frekar frá.\"
Í kynningunni verður lýst birtingarmyndum frjálshyggjuvæðingarinnar í gegnum ólík stigamatskerfi skólanna, sem geri þá að vettvangi vaxandi samkeppni og hagræðingar. Sýnt verður fram á hvernig háskólarnir hafa þróað með sér öflug samkeppnis- og matskerfi. Kerfin eru ólík en miða öll að aðgreiningu sem býr í haginn fyrir frjálshyggjuvæðingu háskólanna. Kerfin valdi viðvarandi kvíða meðal starfsfólks.
Í kynningunni verður haldið fram á grunni greinarinnar að birting frjálshyggjuvæðingar sé einn angi af sköpun kvíða meðal fólks almennt.