Norðursigling fær umhverfisverðlaun

Norðursigling á Húsavík er handhafi Umhverfisverðlauna Ferðamálastofu 2015. Ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar og viðskiptaráðherra, afhenti verðlaunin á Ferðamálaþingi í Hofi á Akureyri í dag.  

Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og er þetta því 21. árið í röð sem verðlaunin eru veitt, en við afhendinguna í dag viðhafði ráðherra þessi orð um mikilvægi verðlauna af þessu tagi: \"Óvíða í atvinnulífinu eru umhverfismálin í meiri forgrunni en í ferðaþjónustunni, og öll vitum við að náttúran okkar er helsta auðlind atvinnugreinarinnar. Ábyrg afstaða fyrirtækja til umhverfismála skiptir því miklu máli, en mikil vakning og umræða hefur einmitt átt sér stað innan ferðaþjónustunnar um nauðsyn þess að umgangast þetta fjöregg okkar af meiri sjálfbærni, virðingu, og ekki síst nærgætni, því allar okkar athafnir hafa árif á umhverfið með einum og öðrum hætti.“ 

Í umsögn dómnefndar segir að Norðursigling hafi að þessu sinni verið tilnefnd vegna markmiða sinna og árangurs í að efla sjálfbæra ferðaþjónustu, en fyrirtækið hafi náð margvíslegum og eftirtektarverðum árangri í þeim efnum: \"Sérstaklega er horft til þess að undanfarið hefur fyrirtækið, ásamt teymi íslenskra og norrænna samstarfsaðila, þróað nýtt rafkerfi, þar sem vindorkan er notuð til þess að hlaða rafgeyma skipsins Opal,\" segir þar

\"Með þessari nýtingu á grænni orku er Norðursigling orðin fremst meðal jafningja í uppbyggingu sjálfbærrar hvalaskoðunar á Íslandi og hefur sannarlega látið verkin tala í þeim efnum og skapað sér sess meðal helstu frumkvöðla í vistvænum siglingum. Verkefninu, sem er einstakt á heimsvísu, er ætlað að nýtast öllum skipaflota fyrirtækisins, en fyrirtækið hefur skapað sér mikla sérstöðu með áherslu sinni á nýtingu og verndun gamalla báta, sem er til hreinnar fyrirmyndar, enda um mikil menningarverðmæti að ræða,\" segir enn fremur í umsögn dómnefndar.

Þá segir að fyrirtækið sé einnig meðvitað um álagsþol auðlindarinnar sem það byggi afkomu sína á og leggi m.a. mikla áhersla á að trufla ekki hvali í ferðum sínum og fylgi ákveðnu verklagi í þeim efnum, m.a. með notkun á hljóðlátu drifkerfi. Virðing fyrir auðlindinni endurspeglist með skýrum hætti á heimasíðu fyrirtækisins og einnig sé lögð áhersla á að fræða starfsmenn og viðskiptavini um umhverfismál.

Norðursigling er með bronsmerki í umhverfiskerfi Vakans og er eini tilnefndi aðilinn sem náð hefur þeim árangri. Í máli ráðherrans kom fram að verulegu máli skipti, að íslensk ferðaþjónusta sammælist um að vinna sífellt að auknum gæðum og umhverfisvitund í sínum ranni: \"Uppbygging VAKANS, gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, hefur einmitt þetta að markmiði, en þar tók atvinnugreinin sjálf höndum saman við lykilaðila í stoðkerfi atvinnulífsins til að vinna að þessum markmiðum. Það er von mín að ferðaþjónustuaðilar nýti sér vel þau tækifæri sem VAKINN hefur upp á að bjóða, þannig að saman getum við gert frábæra atvinnugrein enn betri,“ sagði Ragnheiður Elín.