Nú eru tíu ólík vörumerki í veitingageiranum komin undir sama hatt eftir samruna veitingafyrirtækjanna FoodCo og Gleðipinna. Um er að ræða staðina:
Hamborgarafabrikkan, Blackbox, Shake&Pizza, Eldsmiðjan, Saffran, Pítan, Aktu-taktu, Kaffivagninn, American Style og Roadhouse. Jóhannes Ásbjörnsson segir í samtali við Morgunblaðið að leggja eigi enn meiri áherslu á gæði og hlúa að sérkennum og kjarna hvers staðar fyrir sig. Jóhannes, sem fyrst varð þekktur ásamt Sigmari Vilhjálmssyni á Popp tíví, hefur verið starfandi í veitingageiranum síðustu tíu ár. Jóhannes eða Jói á Fabrikkunni eins og hann hefur gjarnan verið kallaður opnar sig um þessi tíðindi á samfélagsmiðlum. Þar segir hann:
„Elín móðir mín er jarðbundin og friðelskandi kona. Hún hefur tvisvar sinnum um ævina spurt mig eftirfarandi spurningar:
„Hvað ertu nú búinn að koma þér í drengur?“
Fyrra skiptið var þegar ég afþakkaði örugga sumarvinnu í Skalla í Árbæ og valdi frekar að tala daglega í útvarpið. Seinna skiptið var í gær þegar ég sagði henni meðfylgjandi fréttir.“
Jói hefur sjálfur ekki svarið á reiðum höndum en bætir við að til þess að ná hæfni og varanlegum árangri þurfi að vinna í tíu þúsund klukkustundir.
„Nú hef ég starfað í veitingamennsku frá því að Fabrikkan var stofnuð árið 2010 og það hefur sannarlega verið mikill skóli. Nú tekur við enn stærri áskorun,“ segir Jói og bætir við:
„Hugmyndin er í raun einföld, ástríðufull vöruþróun með áherslu á gæði matar og þjónustu og að veita hverjum og einum veitingastað í fangi Gleðipinna þá ást og umhyggju sem hann, og viðskiptavinir okkar, eiga skilið.“
Þá þakkar Jói vinum og fjölskyldu fyrir stuðninginn og bætir við að lokum:
„Kær kveðja, ykkar Jói á Fabrikkunni, Keiluhöllinni, Blackbox, Shake&Pizza, Saffran, Eldsmiðjunni, Pítunni, Aktu taktu, Kaffivagninum, American Style og Roadhouse. Hvað er ég nú búinn að koma mér í?“