Mikil snjóflóðahætta á vestfjörðum

Lýst hefur verið yfir óvissustigi vegna snjóflóða á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum. Á fjörðunum norðanverðum er talin mikil hætta á snjóflóðum, að því er fram kemu á vef Veðurstofu Íslands.
 
Þar segir að spáð sé mikilli snjókomu á laugardagskvöld og aðfaranótt sunnudags, fyrst í norðvestanátt og síðan norðaustanátt, og að á sunnudegi verði áframhaldandi úrkoma úr norðaustri. Í slíku veðri sé viðbúið að snjóflóð falli á þessum slóðum.

Mikill nýr snjór bættist í fjöll vestra í vikunni, í kjölfar hláku um síðustu helgi. Fyrri hluta vikunnar snjóaði í suðvestanátt en aðfaranótt föstudags snjóaði úr austri og norðaustri. Því sé væntanlega töluverður snjór í öllum hlíðum, hvert sem þær snúa. Nánar má kynna sér aðstæður í fjöllum á Vestfjörðum á vef Veðurstofunnar.