„Mikið er Ís­land sorg­legt land þegar kemur að heil­brigði“

Söngkonan Ellen Kristjánsdóttir vandaði íslenska heilbrigðiskerfinu ekki kveðjurnar í pistli sem hún birti á Facebook-síðu sinni í dag. „Hér sit ég á bráðamóttöku landspítalans,“ skrifar Ellen. „Ástæðan er sú að gifsið mitt blotnaði og ég verð að fá nýtt. Var í aðgerð á hendi fyrir viku síðan. Að labba hingað inn og fyrir utan er eins og að koma að stórslysi…“

Ellen segir frá því að kona í afgreiðslunni á spítalanum hafi brotnað niður eftir að maður sem var ásamt móður sinni í vitlausu gifsi spurði hana hví þau yrðu að bíða svona lengi. „Frönsk kona við hlið mér grætur og mér líður hræðilega að sjá hvernig heilbrigðiskerfið (bráðamóttakan) er gjörsamlega farið.“

Ellen veltir því upp að mögulega ætti hún heldur að fljúga til Kaupmannahafnar, þar sem hún kæmist líklega fyrr að en ef hún biði á spítalanum.

„Elsku aumingja fólkið sem vinnur hér og aumingja fólkið sem er veikt,“ segir Ellen. „Mikið er ísland sorglegt land þegar kemur að heibrigði - stórgallað heilbrigðiskerfi í ríku fínu landi. Hverjum getum við kennt um?“