Margar fjölskyldur eiga ekki fyrir tannréttingum: „Póli­tísk ákvörðun“

Kristín Heimisdóttir, tannréttingasérfræðingur, lektor við tannlæknadeild HÍ og formaður Tannréttindafélags Íslands, segir margar fjölskyldur á Íslandi ekki hafa efni á að senda börn sín í tannréttingar. Bendir hún á að styrkur hins opinbera hafi hlutfallslega lækkað með árunum.

Styrkur til barnafjölskyldna vegna tannréttinda hefur verið upp á 150 þúsund krónur frá árinu 2002 en tannréttingar geta kostað 800-1.200 þúsund krón­ur. „Hefði sá styrk­ur verið vísi­tölu­tengd­ur og fylgt eðli­legu verðlagi, væri hann um 335 þúsund krón­ur í dag (skv. vísi­tölu neyslu­verðs – Hag­stofa Íslands),“ bendir Kristín á í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.

Kristín segir tann- og bitskekkjur oft erfast innan fjölskyldna og getur því töluverður kostnaður lagst á eina fjölskyldu á örfáum árum þegar börnin þurfa á tannréttingum að halda. Oft eiga fjölskyldur rétt á styrkjum vegna annarra meðfæddra galla í líkamanum.

„Mál­um er þannig háttað í dag að marg­ar fjöl­skyld­ur hafa ekki efni á að senda börn sín í tann­rétt­ing­ar; hvað þá ef mörg börn inn­an sömu fjöl­skyldu þurfa á tann­rétt­ing­um að halda. Í lang­flest­um til­fell­um fæðast börn með bit­skekkj­ur/​tann­skekkj­ur og lítið sem ekk­ert við þeim að gera. Í lang­flest­um til­vik­um er því um meðfædd­an galla að ræða og lítið sem for­eldr­ar geta gert til að koma í veg fyr­ir skaðann. Benda má á að slík­ir meðfædd­ir gall­ar ann­ars staðar í lík­am­an­um en í tygg­ing­ar­fær­um væru sann­ar­lega bætt­ir með full­um stuðningi hins op­in­bera,“ skrifar Kristín en að hennar mati er það pólitísk ákvörðun að veita fé til málaflokksins þar sem hækkun styrksins er háð ákvörðun Alþingis.

„Nú er lag fyr­ir kom­andi kosn­ing­ar fyr­ir alla stjórn­mála­flokka að velta því fyr­ir sér, hvort þessi mál barna­fjöl­skyldna eigi að vera í for­gangi eða ekki.“