Kristín Heimisdóttir, tannréttingasérfræðingur, lektor við tannlæknadeild HÍ og formaður Tannréttindafélags Íslands, segir margar fjölskyldur á Íslandi ekki hafa efni á að senda börn sín í tannréttingar. Bendir hún á að styrkur hins opinbera hafi hlutfallslega lækkað með árunum.
Styrkur til barnafjölskyldna vegna tannréttinda hefur verið upp á 150 þúsund krónur frá árinu 2002 en tannréttingar geta kostað 800-1.200 þúsund krónur. „Hefði sá styrkur verið vísitölutengdur og fylgt eðlilegu verðlagi, væri hann um 335 þúsund krónur í dag (skv. vísitölu neysluverðs – Hagstofa Íslands),“ bendir Kristín á í grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
Kristín segir tann- og bitskekkjur oft erfast innan fjölskyldna og getur því töluverður kostnaður lagst á eina fjölskyldu á örfáum árum þegar börnin þurfa á tannréttingum að halda. Oft eiga fjölskyldur rétt á styrkjum vegna annarra meðfæddra galla í líkamanum.
„Málum er þannig háttað í dag að margar fjölskyldur hafa ekki efni á að senda börn sín í tannréttingar; hvað þá ef mörg börn innan sömu fjölskyldu þurfa á tannréttingum að halda. Í langflestum tilfellum fæðast börn með bitskekkjur/tannskekkjur og lítið sem ekkert við þeim að gera. Í langflestum tilvikum er því um meðfæddan galla að ræða og lítið sem foreldrar geta gert til að koma í veg fyrir skaðann. Benda má á að slíkir meðfæddir gallar annars staðar í líkamanum en í tyggingarfærum væru sannarlega bættir með fullum stuðningi hins opinbera,“ skrifar Kristín en að hennar mati er það pólitísk ákvörðun að veita fé til málaflokksins þar sem hækkun styrksins er háð ákvörðun Alþingis.
„Nú er lag fyrir komandi kosningar fyrir alla stjórnmálaflokka að velta því fyrir sér, hvort þessi mál barnafjölskyldna eigi að vera í forgangi eða ekki.“