Magnús hlynur kynntist konunni í gegnum æskuna – voru pennavinir í 6 ár – fagnar í dag 50 árum

Magnús Hlynur Hreiðarsson fagnar í dag fimmtugsafmæli. Magnús er einn þekktasti og dáðasti fjölmiðlamaður landsins. Hann fæddist 4. September 1969 í Keflavík og er uppalinn í Vogum á Suðurnesjum.

Magnús Hlynur flutti á Selfoss vorið 1991. Þar fékk hann áhuga á garðyrkju og hóf nám við Garðyrkjuskóla ríkisins á Reykjum í Ölfusi. Lauk hann námi 1996. Það var svo árið 014 sem Magnús hóf nám í fjölmiðlafræði og útskrifaðist vorið 2017, en fyrir þann tíma var hann löngu orðinn þekktur fyrir að flytja fréttir á sinn einstaka hátt.

Hann hefur starfað fyrir RÚV, var ritstjóri Dagskrárinnar, vann á Fréttablaði Suðurlands en í dag starfar Magnús Hlynur í hálfu starfi sem fréttamaður á Stöð 2, Bylgjunni og Vísi. Helstu áhugamál Magnúsar eru fjölskyldan, fréttir, fjölmiðlar, íþróttir, garðyrkja og landbúnaðarmál.

Eiginkona Magnúsar Hlyns er Anna Margrét Magnúsdóttir. Kynntust þau á nokkuð sérstakan máta. Áður en þau byrjuðu saman höfðu þau verið pennavinir í sex ár og kynntust í gegnum Æskuna.

Magnús hlynur tjáir sig um tímamótin við Morgunblaðið. Þar segir Magnús Hlynur að hann ætli að bjóða vinum og vandamönnum heim. Magnús Hlynur segir:

 „Þetta verður vonandi skemmtilegt, ég ætla að koma fólkinu mínu á óvart, vinum og vandamönnum, gera eitthvað í mínum anda og sjá hvernig fólki líkar það. Mér finnst óvissa alltaf svo skemmtileg, hvort sem það er verið að koma mér á óvart eða ég að koma öðrum á óvart.“