Lögfræðingurinn reyndi að stöðva umjöllun kompáss: „stúlkan er 17 ára -er að auki að vinna úr persónulegum vandamálum hjá sérfræðingi“

Hin sautján ára gamla Margrét Lillý Einarsdóttir sem segir fjölskyldu sína, barnavernd, skólakerfið og Seltjarnarnesbæ hafa brugðist sér hefur nú opnað sig um það ofbeldi og vanrækslu sem hún bjó við.

Í nýjasta þætti Kompáss segir Margrét sögu sína og hefur Kompás einni gundir höndum gögn sem sýna að móðir Margrétar hefur glímt við áfengisfíkn og andleg veikindi.

Margrét segist fyrst muna eftir veikindum móður sinnar þegar hún var aðeins fimm ára gömul en hún ólst upp hjá henni.

„Ég man eftir því að hún sat og reykti, bakandi köku og bullandi að einhver væri að horfa á okkur. Hún hafði lokað okkur inni í nokkra daga og svo heyri ég lögregluna banka á útidyrahurðina. Það næsta sem ég man er að lögreglan og afi minn eru að brjóta niður hurðina, taka mömmu mína, handtaka hana og fara með á geðspítalann,“ segir Margrét Lillý í viðtalinu.

Lögmaður Margrétar, Sævar Þór Jónsson segir ótrúlegt að ekki hafi verið gripið inn í og tekur hann undir að kerfið hafi brugðist bæði Margréti sem og móður hennar.

Margrét upplifði stanslausar áhyggjur af móður sinni og fann hún fyrir verndarþörf gagnvart henni. Þegar loka átti móður hennar inni á geðdeild hafi hún bæði verið reið og í uppnámi í hvert skipti.

Var orðin vön brennivínsdauða móður sinnar

Segir hún móður sína hafa drukkið mikið og reglulega dáið brennivínsdauða fyrir framan hana.

„Ég var alveg skíthrædd fyrstu skiptin en svo fór ég að venjast þessu.“

Faðir Margrétar, Einar Björn segist ekki hafa áttað sig á því hversu slæmt ástandið var en hann hafi þó alltaf haft áhyggjur af henni.

„Ég kannski hefði átt að stappa niður fótunum eitthvað meira en mér finnst kerfið bara alveg ömurlegt og ég átti aldrei séns. Barnavernd hefur aldrei látið mig vita af neinu sem hefur komið upp á. Aldrei hringt í mig. Aldrei tilkynnt mér neitt,“ segir Einar Björn.

Kompás ræddi einnig við Sigríði Gísladóttur sem situr í stjórn Geðhjálpar og ólst einnig upp hjá veikri móður. Segir hún mál Margrétar ekki koma sér á óvart og telur hún að um miklu fleiri svipuð dæmi sé að ræða sem ekki sé vitað af.

„Þetta er svo mikill feluleikur, bæði að vera með geðsjúkdóm og að vera barn sem á foreldri með geðsjúkdóm. Þau vilja ekki fara af heimilinu, þau vilja passa mömmu og pabba,“ segir Sigríður og bætir því við að eðli barna sé a hjálpa mömmu og pabba séu þau veik. Margrét hefur einmitt sagst hafa viljað passa upp á móður sína.

Lögfræðingur móður hennar segir umfjöllunina eiga rætur að rekja til forsjárdeilu

Fyrir fréttaflutning Kompáss var haft samband við móður Margrétar sem fékk lögfræðing sinn til þess að svara.

Í bréfi til fréttastofu segir lögfræðingurinn umfjöllunina eiga rætur sínar að rekja til forsjárdeilu foreldra stúlkunnar sem staðið hefur yfir í mörg ár.

„Faðir stúlkunnar virðist hafa sannfært dóttur sína um mikilvægi þess að stíga fram og setja fram ásakanir á hendur móður sinni. Þá virðist þetta einnig vera lokahnykkurinn í sálfræðimeðferð stúlkunnar sem ætti að hringja viðvörunarbjöllum hjá fréttastofunni. Það hlýtur að vera alvarlegt umhugsunarefni að í þættinum eigi að miðla frásögn barns, stúlkan er 17 ára, sem er að auki að vinna úr persónulegum vandamálum hjá sérfræðingi. Þá er hún að setja fram ásakanir á hendur móður sinni sem glímir sjálf við geðrænan vanda,“ segir í bréfinu.

Þá tekur lögfræðingurinn fram að enginn græði á umfjölunninni og allra síst barnið sem á í hlut.

„Ég hef komið þeim sjónarmiðum á framfæri við fréttastofuna að umbjóðandi minn telji að umfjöllun um málið eigi ekki heima í fjölmiðlum enda varðar það einstaklega viðkvæmar persónuupplýsingar sem eru til umfjöllunar hjá þar til bærum stjórnvöldum.“

Hvatti Sýn hf. til þess að hætta við umfjöllunina

Hvetur lögfræðingurinn Sýn hf. til þess að hætta við umfjöllunina og segir hann líklegt að hún muni brjóta gegn starfsreglum fréttastofunnar, siðareglum Blaðamannafélagsins og ákvæðum laga um persónuvernd.

„Í því sambandi finnst mér mikilvægt að árétta eftirfarandi atriði úr ritstjórnarstefnu fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis sem hefur verð birt á vef Sýnar og á vef Fjölmiðlanefndar, en þar segir:  

Sérstakrar vandvirkni og nærgætni skal gætt í umfjöllun um börn undir lögaldri. Ekki skal ræða við barn, sem er undir lögaldri, um viðkvæm mál sem snúa beint að velferð þess og/eða annarra barna nema með samþykki foreldra eða annarra forráðamanna.“

Þá tekur hann fram að stúlkan sjálf sem er helsti heimildarmaður og viðmælandi þáttarins sé enn í forsjá móður sinnar þrátt fyrir að hún búi hjá föður sínum.

„Þá verður framangreindur texti úr starfsreglum fréttastofunnar ekki skilinn á annan veg en að þörf sé á samþykki beggja foreldra þegar rætt er við börn. Það verður því ekki betur séð en að fréttastofa Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis ætli að brjóta eigin starfsreglur með þessari umfjöllun.“

Að lokum bendir lögfræðingurinn á 3. gr. siðareglna Blaðamannafélagsins:

Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.

Hægt er að horfa á þátt Kompáss og lesa ítarlegra viðtal við Margréti á vef Vísis með því að smella hér.