Tvískinnungur er fyrir hendi í vernd gagnvart lífríki Mývatns.
Þetta segir Karl Ingólfsson umhverfissinni sem mjög hefur látið til sín taka í gagnrýni á Landsnet og Landsvirkjun og þá ekki síst vegna raflínulagna.
Karl segir vegna fréttar Hringbrautar um að von sé á 350 manns til Mývatnssveitar vegna upptöku á bútum í stórmyndinni Fast and the Furious 8, en fréttin fjallaði um sambýli veiðibænda og Hollywood fólksins þar sem tökur munu einkum fara fram á ísilögðu vatninu, að í stærra samhengi sýni frétt Hringbrautar tvískinnung um umferð á Mývatni. Engin takmörk séu við notkun mengandi tvígengis utanborðsmótora og á Karl þar við báta veiðibænda. Sömu sögu sé að segja um vélsleða og mótórhjól.
“Þessi mótorar menga gríðarlega og skila allri smurolíu í vatnið,” segir Karl í athugasemd við frétt Hringbrautar á facebook.
Þá segir hann að tugum tonna af næringarsöltum sé dreift á vatnsbakkana, frárennslismál séu ekki alls staðar sem skyldi. Ekið sé á ísnum að vetrarlagi á bílum og um vatnsbakkann aki olíuflutningabílar með 30.000 lítra af olíu. Kísilnámið hafi verið önnur saga en þeirri sögu sé lokið.
Það sé þó eitt sem heimamenn og hið opinbera passi upp á að banna.
“Mývatni er borgið, þar ríkir hin gríðarþýðingarmikla náttúruvernd sem bannar kayakaróður á vatninu! skrifar Karl. Svo kaldhæðnislega vilji þó til að kæjakróður sé vistvænastu umferðin í boði.
“Þar er yfirvarp náttúruverndar notað til að friðþægja landeigendur. Bönn af þessu tagi eru til þess eins fallin að koma óorði á raunverulega náttúruvernd og skerða almannaarétt.”
Nokkrar umræður hafa orðið um hve mikil mengun fylgi komu kvikmyndafólksins. Heimamenn hyggjast standa eigin vakt vegna komu fólksins sem er mikil hagræn innspýting inn í dauðan ferðaþjónustutíma í sveitinni. Þá fara tökurnar fram með leyfi og vöktun fulltrúa frá Umhverfisstofnun.