Leiðréttingin er 30% minni en lofað var

Aðeins 106 milljarðar hafa skilað sér af þeim 150 milljörðum króna ávinningi sem Leiðrétting ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar átti að færa húsnæðiskaupendum. Þetta er næstum þriðjungi minna en talað var um. Þetta kemur fram í fréttaskýringu Kjarnans.

Leiðréttingunni var ætlað að skila sér á þremur árum frá 2014 til 2017. Tæpur helmingur hennar, eða 70 af 150 milljörðunum, átti að koma til þegar séreignasparnaður var nýttur skattfrjálst til að borga niður húsnæðislán. Mun færri hafa hins vegar nýtt sér þetta séreignarsparnaðarúrræði en gert var ráð fyrir. Aðeins 44 milljörðum króna af séreignasparnaði hefur verið ráðstafað inn á húsnæðislán í stað áætlaðra 70 milljarða, 62% minna en ríkisstjórnin áætlaði. Heimildin hefur verið framlengd og gildir fram á mitt sumar 2019.