Nú kostar 500 krónur að skoða skálholtskirkju: „þarf ölmusukort til að skoða ísland?“

Skálholtskirkja rukkar nú alla þá sem vilja heimsækja kirkjuna um minnst 500 krónur. Það var kirkjuráð sem tók ákvörðun um að innheimta gjöldin. Það þótti umdeilt þegar rukkað var fyrir aðgang að sýningu í kjallara kirkjunnar í fyrra. Nú hefur verið gengið skrefinu lengra og eru gestir rukkaðir hvort sem þeir fari niður í kjallara kirkjunnar eða ekki.

Kristján Björnsson vígslubiskup segir í samtali við Ríkisútvarpið að gjaldið gagnist fyrir rekstur á kirkjunni; þrif, gæslu og annað. Rekstur sókna gengur misjafnlega en samkvæmt RÚV er þetta eina kirkjan sem rukkar fyrir að fara einungis inn í kirkjuna sjálfa.

Árið 2017 sagði Ögmundur Jónasson fyrrverandi ráðherra að hann hefði heyrt að þetta stæði til. Þá Sagði Ögmundur: „Þarf ölmusukort til að skoða Ísland? Það er eins gott að gleyma ekki greiðslukortinu þegar farið er með fjölskylduna að skoða \"landið okkar\". Nú kostar líka þrjú hundruð krónur að pissa í Hörpu [...] Hugmyndir hafa komið fram um að rukka inn í Skálholtskirkju, til dæmis fimm hundruð krónur svo gera megi við altaristöfluna.“

Nú er þetta orðið að veruleika. 500 krónur kostar ef skoða á Skálholtskirkju.