Ritstjórarnir mættu galvaskir á Hringbraut í gærkvöld í samnefndum þætti og ræddu jafnt ferðamannastrauminn á Íslandi og flóttamannastrauminn í Evrópu, svo og kommentakerfin sem kaffæra alla umræðu í landinu - og deyfa hana fyrir vikið.
Að þessu sinni mættu Atli Fannar Bjarkason, ritstjóri Nútímans og Sigríður Björk Bragadóttir, ritstjóri Gestgjafans og horfðu yfir fréttasviðið og það var af nógu að taka eins og fyrri vikurnar, þótt raunar síðustu dagar hafi ekki verið stærstu fréttadagar ársins.
Kommentakerfið kom til tals í þættinum sakir þeirrar útreiðar sem Logi Bergmann Eiðsson, fréttamaður fékk eftir að hafa gefið þeim landsmönnum sem vilja ekki taka á móti einum einasta flóttamanni lága einkunn í umræðu á samfélagsmiðlum. Hann fékk yfir sig skæðadrífu sleggjudóma í kjölfarið, en Atli Fannar segir stórkarlalegar yfirlýsingar virkra í athugasemdakerfum standa þroskaðri umræðu í samfélaginu fyrir þrifum; fólk veigri sér í auknum mæli við að viðra afgerandi skoðanir sínar af ótta við að fá yfir sig endalausar svívirðingar úr kommentakerfinu sem jafnan logi ef einhver setur fram skoðun sína sem kann að vera á skjön við almenna umræðu. Fyrir vikið dofni yfir umræðunni, fólk velji fremur að þegja en tjá sig af fyrrgreindum sökum.
Atli Fannar Bjarkason og Sigríður Björk ræddu einnig við Sigmund Erni um plúsana og mínusana við stóraukinn ferðamannastraum til landsins, nú þegar sumri hallar. Atli Fannar talaði um karnivalstemningu í miðborginni upp á hvern einasta dag og vel fram á kvöld þar sem jafnvel sé erfitt að fá pantað borð á veitingahúsi eftir leikhús, hvað þá fyrr um daginn. Sigríður Björk er sammála um að andrúm miðborgarinnar - og raunar bæja víða um land hefur batnað með þessari fjölgun ferðafólks sem hafi blessunarlega styrkt flóru veitingahúsa um land allt sem sé sérstakt gleðiefni. Og mínusarnir; jú, græðgisvæðingin getur vissulega komið okkur í koll, en kannski er ferðaþjónustan bara að hlaupa af sér hornin í þessum efnum, eins og Atli Fannar orðaði það.
Ritstjórana er hægt að nálgast í heild sinni inni á hringbraut.is.
Horfa á klippur út þættinum með því að smella hér: