Komin með nóg af ofurpörum: „Fyrst og fremst snobb fyrir auðæfum”

Þó nokkrir netverjar virðast hafa fengið sig fullsadda á meintum ofurpörum og fréttum af þeim.

Smartland tók nýlega saman lista af þeim þekktum Íslendingum sem hafa trúlofað sig í París að undanförnu. Þar mátti finna pör á borð við Línu Birgittu og Gumma Kíró, Birtu Hlín Sigurðardóttur og Helga Jónsson, Viktoríu Hermannsdóttur og Sóla Hólm og fleiri.

Í athugasemdum hrista einhverjir höfuðið yfir fréttinni og virðast ekki ósáttir við bónorðin sjálf heldur hugtakið ofurpar sem slíkt.

„Hver er skilgreiningin á Ofurpari, hver er kríterinn til þess að vera Ofurpar? Þætti vænt ef blaðamaður gæti upplýst hálfgamlann karl um það,“ segir Vilbogi Magnús Einarsson en Flosi Þorgeirsson svarar: „Það er par sem hefur varið völlinn á pari mörgum sinnum“.

Guðrún Ólafsdóttir bendir þá á hversu oft sama fólkið komi fyrir í fréttum af ofurpörum en Ruth Fjeldsted grefur í orðsifjarnar og veltir fyrir sér skilgreiningunni á titlinum „ofur“ yfirleitt.

„Ofur þetta og ofur hitt?“ segir hún. „Ég held að þetta sé fyrst og fremst snobb fyrir ,,auðæfum”. Þetta fólk virðist ekkert annað hafa til brunns að bera en að eiga skítnóg af peningum sem það nærist á að velta sér upp úr og gæta þess að ALLIR fái séð.“