Kjarasamningar og loftslagsmál

Í byrjun apríl var skrifað undir nýjan kjarasamning hjá stærstum hluta hins almenna vinnumarkaðar - kjarasamning sem vonandi er ákveðið upphaf að meiri jöfnuði og sátt á íslenska vinnumarkaðinum.

Þessi samningur fékk hið risastóra nafn „Lífskjarasamningur“ og fylgdi með ítarlegur aðgerðarlisti í tugum liða frá ríkisstjórninni til stuðnings samningnum.

Athygli vekur hins vegar að hvergi er að finna í þessum samningi aðgerðir aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnarnarinnar gegn loftlagsbreytingum - ekki eitt einasta orð. Því má halda fram að kjarasamningar hafi lítið með loftslagsaðgerðir að gera - en ef svo er hefði átt að velja nýgerðum kjarasamningi annað nafn en „Lífskjarasamningur“ því  fátt mun hafa meiri áhrif á lífskjör okkar á komandi árum en baráttan gegn loftlagsbreytingum.   

Á árinu 2019 áttu aðilar vinnumarkaðarins að taka afgerandi forystu í umhverfismálum með því að skrifa inn í „Lífskjarasamninginn“ aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda. Þegar upp er staðið munu loftlagsaðgerðir skipta mun meira máli fyrir lífskjör okkar en aðgerðir til að draga úr verðtryggingu og lækka vexti  - þó að þeir hlutir séu vissulega góðra gjalda verðir.  

Tíminn til að bregðast við áhrifum lofslagsbreytinga er hins vegar að renna út og ef við eigum að eiga einhverja von verða fyrirtæki og neytendur að taka risaskref og breyta framleiðsluferlum - minnka sóun og breyta neysluhegðun sinni svo fátt eitt sé nefnt.  

Við verðum að vona að skrifað hafi verið undir síðasta kjarasamning hér á landi þar sem loftlagsmálin komust ekki á blað.