Kína vill ísland í „belti og braut“

Jin Zhijian, sendiherra kínverska alþýðulýðveldisins á Íslandi, segir Kína hafa boðið Íslandi þátttöku í „Belti og Braut“ sem felur í sér uppbyggingu gríðarstórra innviðaverkefni sem spanna svæðið frá Asíu til Evrópu. Hann segir að íslenska ríkisstjórnin hafi lýst því skýrt að hún sé opin fyrir „Belti og Braut“ frumkvæðinu. Þá hafi íslenskt atvinnulíf mikinn áhuga á þátttöku samstarfinu. Hann vonast til að bæði ríkin innan tíðar taka ákvörðun um samkomulagi vegna þessa.

 Jin Zhijian sendiherra var gestur í þættinum Ísland og umheimur á Hringbraut, sunnudagskvöldið 12. maí 2019 þar sem hann ræddi samskipti landanna, „Belti og braut“, og Norðurslóðastefnu Kína.

Sendiherrann þekkir ágætlega til Íslands og talar íslensku. Hann dvaldi á Íslandi á árunum 1985 til 1988 sem nemandi í íslensku fyrir útlendinga við Háskóla Íslands. Síðan vann frá 1988 til 1991 í kínverska sendiráðinu sem ungur stjórnarerindreki. „Ég er mjög náinn Íslandi. Ísland kallast landið þar sem ég stundaði námi í og byrjaði starfsferil minn,“ segir hann. Starfsferillinn hefur verið innan kínversku utanríkisþjónustunnar, nú síðast í höfuðstöðvum ráðuneytisins sem aðstoðarsiðameistari, uns hann varð sendiherra Kína á Íslandi í janúar á síðasta ári. „Það er mjög gaman að fá tækifæri að koma aftur til Íslands,“ segir hann.

„Belti og braut“: Gríðarstór áætlun um innviðauppbyggingu

Frumkvæðið „Belti og braut“ er eitt helsta stefnumál Xi Jinping, leiðtoga Alþýðuveldisins Kína. Með stórtækum innviðaframkvæmdum um allan heim upp á þúsundir milljarða Bandaríkjadala, eru Kínverjar að auka umsvif og áhrif á alþjóðavísu. Þar er öllum vegum ætlað að liggja til Peking.

Að sögn Jin Zhijian lagði forseti Kína til þessa áætlun árið 2013. „Megintilgangur þess er að koma á kerfi sem gæti verið mikilvægur rammi fyrir alþjóðlega samvinnu og myndi hvetja til sameiginlegrar framþróunar. Þetta frumkvæði nær til fimm lykilsviða: Það er stefnumörkunar, innviða, viðskipta, fjármála og að tengja fólk saman. Það má segja þetta fimm tengingar á fimm lykilsviðum. Þetta stendur einnig fyrir opna, hreina og græna þróun, sem byggir á nánu samráði, sameiginlegu framlagi og ávinningi allra. Þetta var gert að frumkvæði Kína,“ segir sendiherrann.

Belti og braut felur í sér innviðaverkefni sem spanna svæðið frá Asíu til Afríku, Mið-Austurlanda og Evrópu. Ræturnar eru sagðar í hina fornu Silkileið, en framtakið skiptist í grófum dráttum í landleiðir (þ.e. „beltið“) og sjóleiðir (þ.e. „brautin“). Dæmi um innviðaframkvæmdir sem Kína kostar eða lánar til, eru vegir, brýr, járnbrautir, hafnir, flugvellir, ljósleiðarar og fleira sem tengjast í samfelld net.

10 sinnum stærra en Marshallaðstoðin

Belti og braut er gríðarumfangsmikið verkefni. Til samanburðar er það 10 sinnum stærra en öll Marshallaðstoð Bandaríkjanna í Evrópu eftir seinni heimsstyrjöld. Í dag eru um 80 lönd eru þátttakendur og önnur ríki íhuga það.

Jin Zhijian segir árangurinn sé þegar mikill. „Reynslan segir okkur síðustu fimm ára, að árangur frumkvæðisins hefur reynst mikill, byggt á því að æ fleiri ríki hafa sýnt áhuga og vilja þátttöku í uppbyggingu Belti og Brautar.  Hann segir Kína vera „að sjálfsögðu reiðubúið að vinna með sem flestum ríkjum sem vilja nýta sér frumkvæðið, þar á meðal Ísland og Evrópusambandsríki,“ segir hann.

Gagnrýni: Skuldagildrur fyrir þátttökuríkin?

„Belti og Braut“ hefur fengið talsverða gagnrýni, sérstaklega frá Bandaríkjunum og nokkrum ríkjum Evrópu. Sagt er að Kínverjar séu að seilast til pólitískra áhrifa með því að veita miklum fjármunum til annarra ríkja. Svo mikið að gagnrýnendur segja Kína hafa skapa skuldagildrur fyrir efnaminni þátttökuríki. Umfang og upphæðir eru svo miklar að ýmsum þykir nóg um.

Jin Zhijian gefur ekki mikið fyrir þessa gagnrýni. „Ég þekki til þessarar gagnrýni og hef skoðað hana. Ég hef tekið eftir viðbrögðum nokkurra ríkja. Mér sýnist að öll þessi ríki sem stjórnmálamenn og blaðamenn hafa gagnrýnt séu ekki sammála henni. Ég vil leggja áherslu á að frumkvæðið um Belti og Braut hefur skapa tækifæri til framþróunar og fyrir græna þróun. Þetta er ekki að skapa skuldagildrur. Það er niðurstaða allra þeirra ríkja er máli skipta. Það er einnig mín afstaða,“ segir hann.

Hinn nýi Silkivegur nær alla leið frá Kína til Evrópu. Ítalir hafa m.a. staðfest þátttöku sína í „Belti og Braut“ áætluninni. Sendiherrann segir að auk Ítala hafi meira en 10 Evrópuríki þegar undirritað viljayfirlýsingu um samstarf (MoU) undir ramma Belti og Brautar.

Ísland er á hinni nýju „Silkileið“

En hve langt nær „Belti og Braut“? Er Ísland að taka þátt í þessu? Hefur Íslandi verið boðin þátttaka í áætluninni?

„Ísland var einn stofnaðila Innviðafjárfestingarbanka Asíu (AIIB). Síðan að „Belti og Braut“ var kynnt til sögunnar hefur ríkisstjórn Íslands sýnt vilja til að ræða mögulega þátttöku í „Belti og Braut“. Sem stendur eru báðar ríkisstjórnir að meta þetta. Ég vona að einn dag munum við komast að þeirri niðurstöðu með undirritun viljayfirlýsingar um samstarf (MoU) í Belti og Braut. Íslenska ríkisstjórnin hefur lýst þeirri afstöðu sinni að hún sé opin fyrir frumkvæðinu. Íslenska viðskiptaumhverfið hefur einnig sýnt mikinn áhuga á þátttöku í Belti og Braut. Eins og ég nefndi munu vonandi bæði ríkin innan tíðar taka ákvörðun um að ganga frá samkomulagi um málið,“ segir sendiherrann.

Aðspurður um hvort hann telji líklegt að ísland taki þátt í „Silkiveginum“ segist hann vona það. „Ísland hefur ekki útilokað möguleikann á þátttöku í „Belti og Braut“. Ég tel líklegt, byggt á gagnkvæmum hagsmunum, miklum áhuga atvinnulífsins, sem og áhuga fólks innan stjórnsýslunnar, að bæði ríkin geti stigið það skref.“

Norðurskautsstefna Kína: Vilja aðkomu að stjórnun svæðisins

Kína telur sig til „ríkja nálægt norðurslóðum“ og hefur markað sérstaka stefnu í málefnum Norðurskautsins. Aðspurður um af hverju Kína sé með norðurslóðastefnu vísar sendiherrann til stöðu Kína og stærðar og þess að landið sé með fastafulltrúa í Öryggisráði Sameinuðu Þjóðanna. Kína beri því ábyrgð í friðsamlegri framþróun Norðurskautsins. „Þess vegna höfum við mikinn áhuga á svæðinu. Við kynntum stefnumið okkar á síðasta ári.“  Þar segir hann lykilatriðin vera að skilja betur Norðurskautið sem svæði sem hefur áhrif á marga vegu, til að mynda á hlýnun loftslags, umhverfisvernd, o.s.frv. Í öðru lagi þurfi að verja Norðurskautið vegna viðkvæmrar stöðu svæðisins. Stíga þurfi frekari skref til umhverfisverndar. Í þriðja verði að þróa Norðurskautið á löglegan og skynsamlegan hátt. „Þannig er til að mynda nauðsynlegt að stíga varlega til jarðar þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda. Við þurfum að byggja á samvinnu við alþjóðlega samstarfsaðila,“ segir sendiherrann. „Fjórða markmiðið er að taka þátt í stjórnun Norðurskautsins, því þar eru mörg álitamál og Kína sér ástæðu til þess að eiga þar aðkomu.“

Stærsta tækifærið til samvinnu er þátttaka í „Belti og Braut“

Ísland og Kínverska alþýðulýðveldið komu á stjórnmálasambandi 1971. Aðspurður um tvíhliða samskipti Ísland og Kína segir sendiherrann að þegar horft sé til þess hve ólík ríkin séu varðandi stærð, fólksfjölda, landsvæði, þróunarstigs ríkjanna og félagsgerð, hafi ríkjunum tveimur tekist vel að byggja upp tengsl.

En hvar liggja stærstu tækifærin til samvinnu ríkjanna? „Ég tel að stærsta tækifærið sé þátttaka í þeim möguleikum er „Belti og Braut“ skapar. Þetta er besti möguleikinn til almannheilla með þátttöku yfir 150 ríkja og alþjóðastofnana. Af hverju ekki að nýta þetta tækifæri? Í gegnum „Belti og Braut“ gætum við til dæmis horft til „Silkivegar Norðurslóða“ (“Polar Silk Road”) varðandi nýjar skipaflutningaleiðir um Norðurskautið. Við gætum horft til beins flugs milli ríkjanna tveggja, og annarra tækifæra á borð við hátækniiðnað, nýsköpun, baráttu við hlýnun loftslags, umhverfisvernd, sjálfbæra þróun, Netviðskipti, og svo mætti lengi telja. Ég trúi því að réttar ákvarðanir geti breytt miklu fyrir samskipti okkar í framtíðinni,“ segir sendiherra Kína á Íslandi.

Hægt er að horfa á viðtalið við Jin Zhijian, sendiherra Kínverska í þættinum Ísland og umheimur hér: