Kennarar krafðir um sakavottorð

„Crazy people - en með þessu leggur stjórnin sjálfa sig auðvitað undir, hún hlýtur að víkja öll ef Hæstiréttur staðfestir sakfellingu; nema hennar umbjóðendur hafi fyrir henni vit og leysi hana strax frá störfum.“

Þessi ummæli lætur einn kunnasti blaðamaður landsins, Pétur Gunnarsson, falla á eigin fésbók þar sem hann deilir frétt um að stjórn AFE beri fullt traust til eigin framkvæmdastjóra, Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar.

Þorvaldur var í gær dæmdur í 18 mánaða óskilorðsbundið fangrelsi vegna aðstoðar við umboðssvik í Stím-málinu. Hann segist saklaus og hefur áfrýjað til Hæstaréttar.

Bæjarfulltrúi VG á Akureyri furðar sig á afdráttarlausri traustsyfirlýsingu AFE en allt frá því að Þorvaldur var ráðinn fyrir fjórum árum sem framkvæmdastjóri hefur hans ráðning verið umdeild í ljósi þess að hann hafði réttarstöðu sakbornings hjá sérstökum saksóknara vegna hrunmáls þegar hann var ráðinn. Um opinbera stöðu er að ræða sem greidd er með fé frá skattborgurum og þarf að ríkja trúnaður milli almennings og stjórnar AFE ekki síður en til framkvæmdastjóra.

Margir hafa kallað stuðningsyfirlýsingu stjórnarformanns AFE siðblindu og rætt hefur verið að ef félagið væri starfandi í nágrannalöndum væri búið að fara fram á afsögn stjórnarformanns.

Bæjarbúar á Akureyri hafa bent Hringbraut á að í sumum tilfellum geri Akureyrarbær kröfu um að umsækjendur um störf hjá bænum skili inn sakavottorði. Eigi það við um kennara svo eitt dæmi sé nefnt. Á sama tíma lýsi formaður stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar yfir fullum stuðningi við dæmdan sakamann, framkvæmdastjóra í toppstöðu.

Skrifstofumaður sem þekkir vel til akureyrskrar stjórnsýslu kýs nafnleynd en spyr í samtali við Hringbraut: „Kennari með fangelsisdóm á bakinu myndi seint njóta vafans eða hvað?“ Með því vísar hann til yfirlýsingar AFE í gær en þar sagði m.a.:

„Allt frá því að framkvæmdastjórinn fékk stöðu grunaðs manns hefur stjórn félagsins borið fullt traust til hans og á því hefur ekki orðið breyting. Það er ákvörðun stjórnar að leyfa framkvæmdastjóra að njóta áfram vafans. Í ljósi þess hvernig á málum hefur verið haldið hingað til og þess að málið er enn í meðförum dóms telur stjórn eðlilegt að endanleg ákvörðun verði ekki tekin fyrr en að úrskurður Hæstaréttar liggur fyrir, enda hefur Hæstiréttur síðasta orðið um sekt manna og sakleysi að lögum.  F. h. stjórnar Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar bs. Unnar Jónsson, formaður“

Þór Saari, fv. þingmaður, segir í athugasemd á facebook við frétt Hringbrautar um málið:

„Athyglisvert viðhorf til réttarríkisins hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar. Það félag er sem kunnugt er í eigu sveitarfélaga á svæðinu sem eru opinbert stjórnvald og starfar því í umboði almennings. Getur ekki verið að það hafi orðið hér meiri háttar misbrestur í framgöngu AFE í þessu máli.“