Kára hakkar í sig Guðrúnu sem efast um bóluefni: „Með ólíkindum“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir vangaveltur um að bóluefni Pfizer sé skaðlegt séu með ólíkindum. Sama eigi við um samsæriskenningar að hann og aðrir sem tali fyrir bólusetningu séu innvinklaðir í eitthvað samsæri með auðkýfingnum Bill Gates.

Heilsu og lífsstílsráðgjafinn Guðrún Bergmann fer ekki fögrum orðum um bóluefni Pfizer í pistli sem hún birtir á vefsíðu sinni. Henni líst illa á hugmyndina að nota eigi Íslendinga sem tilraunadýr við áframhaldandi rannsóknir Pfzier á bóluefninu. Hún segir að Íslendingar hafi þurft að hlustað á áróður dag eftir dag bæði úr „raunveruleikaþætti þríeykisins" svokallaða og í innlendum og erlendum fréttum um að enginn gæti andað léttar fyrr en bóluefni fengist.

Í pistlinum spyr hún meðal annars hvort Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, og aðrir sem að málinu koma alveg gleymt Nurnberg siðareglunum sem samþykktar voru árið 1947, eftir að upp komst um hrottalegar tilraunir á fólki í fangabúðum Nasista.

Guðrún hefur í rúm 30 ár verið ötull talsmaður þess að velja náttúrulegar leiðir til betri heilsu og bættra lífsgæða.

Þá segir hún einnig að Kári hafi hagsmunatengsl við Pfizer og gagnrýnir aðkomu hans að farsóttavörnum og bólusetningum.

„Munið þið þegar DeCode fór í gjaldþrot? Þá kom bandarískur fjárfestir og keypti brunarústirnar. Árið 2015 var það svo vinur Kára, sjálfur Bill Gates sem keypti DeCode, sem er nú dótturfyrirtæki AMGEN, sem Bill Gates á líka. Um tíma var AMGEN í samstarfi við Pfizer um framleiðslu á bóluefni, en svo virtist BioNTech hafa stokkið framfyrir AMGEN. Reyndar hafa sjóðir Bill & Melinda Gates verið stórir styrktaraðilar BioNTech, svo og styrktarsjóður AMGEN," skrifar Guðrún og heldur áfram.

„Upplýsingar um okkur Íslendinga sem safnað hefur verið af DeCode í gegnum tíðina, svo og niðurstöður úr skimunum hér á landi hafa því að öllum líkindum farið beint til móðurfyrirtækisins í Bandaríkjunum, þar sem menn telja sig geta læknað sjúkdóma með genabreytingum eða náð stjórn á líkama fólks með því að bólusetja það með bóluefni með öreindum. Kári og félagar hans í AMGEN eða BioNTech eru því litaðir af hagsmunatengslum þegar kemur að farsóttarvörnum og bólusetningum vegna Covid-19."

Kári gerir hins vegar lítið úr þessum fullyrðingum Guðrúnar um hagsmunatengsl hans við Bill Gates í samtali við Mannlíf:

„Ég hef akkúrat engin tengsl við Pfizer og á þar engra hagsmuna að gæta. Þar hefur hins vegar verið búið til besta bóluefni sögunnar og Guðrún lítur sjálfsagt á það sem ógn. Þessar vangaveltur eru með ólíkindum. Ég hef aftur á móti tvisvar setið í pallborðsumræðum með Bill Gates en ég hef engin tengsl við hann og þekki manninn ekki neit. Ég ber mikla virðingu fyrir því hvernig hann notar fé sitt að berjast fyrir bólusetningum í þriðja heiminum gegn allskonar sjúkdómum. Í þau tvö skipti sem ég hitti hann fannst mér hann samt vera frekar pirrandi nörd.“