Jón ásgeir opnar sig um þegar hann kynntist ingibjörgu: herra bónus og ungfrú hagkaup

Seinni hluti viðtals Sigmundar Ernis við Jón Ásgeir Jóhannesson í þættinum Mannamál verður sýndur annað kvöld hér á Hringbraut klukkan 20:00. Þar opnar Jón Ásgeir sig um ýmsar persónulega atburði í lífi sínu. Jón Ásgeir hefur verið undir radarnum síðustu ár líkt og hann orðar það sjálfur í viðtalinu og veitir sjaldan stór viðtöl. Í fyrri þættinum fór Jón Ásgeir ítarlega í saumana á Baugsmálinu, átökin við Davíð og Sjálfstæðisflokkinn, fall Glitnis og hvaða áhrif allt þetta hafði á fjölskylduna. Í þættinum annað kvöld segir Jón Ásgeir frá því hvernig hann kynntist Ingibjörgu Pálmadóttur. Sigmundur Ernir spurði:

Hversu hræddur varstu þú við þá ákvörðun að Herra Bónus væri að byrja með ungfrú Hagkaup?

„Ég held að við höfum hvorugt litið á það þannig að þarna væri Hagkaup og Bónus að renna saman í eina sæng,“ svaraði Jón Ásgeir og bætti við: „Það voru engir viðskiptahagsmunir að baki.“

Hvernig hittust þið?

„Það var þannig að fyrirtæki voru með ráðstefnur, eða fóru á „brainstorming“ fund erlendis, og þar kynntumst við og það var ekki aftur snúið.“

Sigmundur Ernir sagði þá: Þið eruð enn þá saman, lifið góðu lífi saman. Það er ekkert sjálfgefið í þínu lífi, athafnasemin.

 „Nei nei, við erum búin að ganga í gegnum margt. Hún er náttúrulega athafnasöm líka, hún er búin að gera fullt af glæsilegum hlutum,“ svaraði Jón Ásgeir: „Við erum með svona „passion“ fyrir sömu hlutunum og erum að vinna saman og það gengur mjög vel. Svo rann þetta saman. Það var þannig.“