Jesús hvað við eigum bágt þessi þjóð!

Alveg ótrúleg framganga fjármálaráðherra og sjávarútvegsráðherra, á mjög viðkvæmum tíma þar sem auðséð er að það verður að efla og tryggja eftirlitsstofnanir s.s.Fiskistofu og Hagrannsóknastofnun sem verða að hafa nægjanlegan mannafla til að sinna sínum skyldum og verkefnum.

Til að stemma stigu við þeirri að því er virðist glæpastarfsemi sem birtist landanum á hverjum degi. Ég spyr er leikurinn að gera eftirlitsstofnanir svo vanbúnar og vanfjármagnaðar að íslenska ríkið eigi aldrei séns í að verjast stórkostlegri rányrkju sem hér virðist vera við lýði og festa sig alltaf fastar í sessi?

Íslenskur almenningur var mergsoginn af bankaauðmönnum og hrægömmum þeirra, nú virðist upplýst um rányrkju í okkar flottasta atvinnuvegi. Hér sitja á gullkistunum ráðherrar sem hrópa svo á götum að peningaóráðsía sé hjá Landspítalanum sem hefur verð vanfjármagnaður í fjölda ára og að öryrkjar hafi aldrei haft það betra.

Skuldinni vegna alvarlegs rafmagnsleysis sem hálft landið varð fyrir er skellt á landeigendur og umhverfissinna. Ég hef ekki enn séð hvaða fjármagni á að verja í rannsókn vegna Samherjamálsins eða hvernig ríkið ætlar að sjá til þess að sú rannsókn verði ekki svo vanfjármögnuð að engin leið sé að rannsaka það sem skyldi.

Jesús hvað við eigum bágt þessi þjóð!

Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ