Jenný Friðjónsdóttir er ein af fáum konum á Íslandi sem starfa sem vörubílstjóri. Hún tjáir sig við DV og segir að hún verði oft vör við efasemdir um að hún sé jafnfær og karlkyns starfsfélagar hennar. Hún segir í samtali við DV að hún vilji brjóta niður staðalímyndir um hefðbundin störf karla og kvennastörf. Í viðtalinu er hún spurð hvort hún hafi fundið fyrir fordómum. Svarar Jenný játandi. Hún segir:
„Ég hef mikið verið að keyra áburði á sveitabæi. Ég hef tekið eftir því að eftir því sem ég fer lengra inn í dalina, lengra frá mannabyggðum þá verða bændurnir sem ég hitti skrítnari og meira gamaldags í hugsun. Ég lenti einu sinni í gömlum bónda sem var augljóslega haldinn mikilli kvenfyrirlitningu og það lá við að hann segði við mig: „Þú getur þetta ekkert, hvað ertu eiginlega að gera hér.“
Jenný kveðst hafa tjáð honum að ef hann væri ósáttur gæti hún farið sömu leið til baka með áburðinn. „Ég hef tekið eftir því að fólk er mikið að glápa á mig í vinnunni, sumir snúa sig nánast úr hálsliðnum þegar þeir sjá mig bak við stýrið. Ég hef vanið mig á að vinka til baka þegar ég sé að einhver er að stara. Fólk sér þá oft að sér og hættir að glápa.“
Þá segir Jenný á öðrum stað:
„Það eru margir sem sjá fyrir sér sveittan fimmtugan kall í netabol sem situr á rassinum allan daginn. Það er mjög röng ímynd.“
Jenný bætir við að hún hafi fundið fyrir því að fólk hefði ekki trú á að hún gæti ekki sökum kyns tekið að sér ákveðin störf. Hún segir: „Málið er að það er ekkert sem ég get ekki gert þegar kemur að starfinu. Ég geri reyndar ekki við, en það er aðallega bara af því að ég nenni því ekki. [...] Yfirleitt finnst fólki bara frekar töff að ég sé í þessu starfi, ég fæ stundum spurninguna hvort þetta sé ekki erfitt líkamlega. Það er hins vegar fyrst og fremst þannig að það eru kúnnarnir sem geta verið erfiðir.“