Bogi Þór Siguroddsson sem rekur verslunarfyrirtækið Johan Rönning segir jafnlaunavottun ekki aðeins mikilvæga fyrir ímynd fyrirtækja nú á dögum heldur bæti hún hreinlega starfsandann innan fyritækja. Hann var gestur Sigurðar K. Kolbeinssonar í þættinum Atvinnulífið á Hringbraut í gærkvöld þar sem meðal annars er fjallað um jafnlaunavottunina sem fyrirtækið fékk á síðasta ári frá VR: "Jafnlaunavottun er í raun og veru vottun á því að í fyrirtækinu ríki jafnlaunastefna, ekki eingöngu á milli kynja heldur og milli sömu starfa," sagði Bogi Þór í þættinum.
Johann Rönning er margverðlaunað fyrirtæki fyrir góðan starfsanda og hefur á undanförnum árum unnið til ýmissa verðlauna á sviði mannauðsstjórnunar. Það er gamalt í hettunni en síungt í anda eins og vel kom fram í þættinum sem var frumsýndur klukkan 21.00 í gærkvöld, en hægt er að nálgast hann í heild sinni á hringbraut.is, svo og klippur úr þættinum á forsíðu vefjarins.