Aðalhagfræðingur Landsbankans segir að Íslendingar fengju miklu betri kjör á íbúðalánum ef hér væri notaður annar gjaldmiðill, til dæmis evra. Vaxtakjör á hinum Norðurlöndunum eru mun betri, en víða bjóðast þar 1,3 til 1,5 prósent nafnvextir á húsnæðislánum.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2 þar sem farið var ítarlega og með greinargóðum hætti yfir ástæður hárra vaxta á Íslandi, en í fréttinni var sagt að einar mikilvægustu umbætur í lífskjarasókn ungs fólks felist í betri húsnæðismarkaði og aðgangi að lánsfé til íbúðarkaupa á eðlilegum og sanngjörnum kjörum.
Vaxtastig á Norðurlöndunum var borið saman - og reyndist útkoman þessi: Í Svíþjóð bjóðast 1,3 prósent nafnvextir af óverðtryggðum íbúðalánum en Svíar nota sænska krónu með flotgengisstefnu sem ekki er tengd evru. Í evrulandinu Finnlandi bjóðast 1,5 prósent vextir af íbúðalánum. Í Danmörku þar sem notuð er dönsk króna tengd við evru er vaxtaálag íbúðalána 0,675 prósent ofan á kjör í heildsöluskuldabréfaútgáfum bankanna og algeng kjör á íbúðalánum til viðskiptavina dönsku bankanna eru í dag um 1,2 prósent. Í Noregi bjóðast 2 prósent vextir en Norðmenn nota norska krónu. Á Íslandi bjóðast hins vegar 7 - 8,45 prósent vextir.
Í öllum tilvikum er hér um að ræða lægstu fáanlegu nafnvexti af óverðtryggðum íbúðalánum.
Spurt er í fréttinni, sem hægt er að nálgast á visir.is hvers vegna vextir á óverðtryggðum íbúðalánum séu svona miklu hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndunum og hvort það myndi breyta einhverju ef Íslendingar væru með annan gjaldmiðil en íslensku krónuna? Til svara er Daníel Svavarsson aðalhagfræðingur Landsbankans: \"Það sem myndar grunn vaxtanna eru bara kjörin sem bankarnir fá sjálfir þegar þeir gefa út sérvarin skuldabréf. Ofan á þau leggst bankaskattur og það myndar grunninn að þeim kjörum sem bankarnir geta veitt. Það má segja að álagið ofan á kjör bankanna sé einhvers staðar á bilinu 0,2-0,4 prósent. Það er nú allt vaxtaokrið sem við sjáum í tölunum,“ segir hann og bendir á að hlutfallsleg álagning á íbúðalán á Íslandi sé ekki mikið hærri en í Svíþjóð \"ef við brjótum niður álagningu þegar fjármögnun Íbúðalána er annars vegar,“ eins og hann orðar það.
Vandann megi fyrst og fremst rekja til veiks gjaldmiðils sem sé almenningi óhagstæður: Hátt vaxtastig á Íslandi hefur með öðrum orðum ekkert að gera með vaxtaokur bankanna heldur skýrist það af kerfislægum þáttum. Fjármagnskostnaður bæði ríkisins og bankanna er miklu hærri hér á landi en á hinum Norðurlöndundunum og stýrivextir Seðlabankans einnig. Ef ríkissjóður gæti fjármagnað sig á betri kjörum ætti það að birtast í betri vaxtakjörum innanlands. Háir stýrivextir skýrast af peningastefnu til að hafa taumhald á verðbólgu en vextir eru hækkaðir í þeim tilgangi að halda verðlagi stöðugu og verja lífskjör almennings. Háir stýrivextir eru hinn beiski kaleikur sem almenningur þarf að drekka úr svo verðlag á Íslandi haldist stöðugt í umhverfi þar sem gjaldmiðillinn er íslensk króna, eins og segir í fréttinni.
Daníel er spurður hvort annar gjaldmiðill en króna muni breyta hér miklu: \"Já, vissulega myndi það gera það. Við sjáum að vaxtastigið á öðrum gjaldmiðlasvæðum er mun lægra en á Íslandi.”
Og hvaða kostir eru þá í boði? Ef íslenska krónan er hávaxtamynt má velta fyrir sér hvaða aðrir valkostir eru í boði. Í skýrslunni „Valkostir Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum“ sem Seðlabanki Íslands gaf út árið 2012 eru reifaðir aðrir valkostir fyrir Ísland í þessum efnum. Í ritinu segir orðrétt: „Á heildina litið virðist evran vera sá kostur sem best fellur að þörfum íslensks efnahagslífs, sérstaklega þegar hafðar eru í huga niðurstöður rannsókna sem gefa til kynna að tengsl innlendrar hagsveiflu við hagsveiflu myntsvæðisins komi til með að aukast við aðild að myntsvæðinu.\"
Að auki segir í ritinu: „Hinir norrænu gjaldmiðlarnir gætu komið til greina yrði evran ekki fyrir valinu, en með því væri þó verið að tengjast mun minna myntsvæði sem vegur töluvert minna í utanríkisviðskiptum Íslendinga en evrusvæðið. Af þeim er þó danska krónan að ýmsu leyti álitlegust, vegna þess að gengi hennar er tengt evru innan mjög þröngra marka.\"