Innköllun á íslenskum þaratöflum - varan inniheldur of mikið af joði - getur valdið krabbameini

Heilsa ehf. hefur, í samráði við matvælaeftirlit Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, innkallað fæðubótarefnið Íslenskar Þaratöflur frá Gula miðanum vegna þess að varan inniheldur of mikið af steinefninu joði. Samkvæmt upplýsingum á umbúðum vörunnar á hún að innihalda 220 µg af joði í ráðlögðum daglegum neysluskammti sem er ein tafla á dag.  Töflurnar hafa verið efnamældar og kom í ljós að magn joðs er 800 µg í hverri töflu.  Efri öryggismörk joðs samkvæmt Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) eru 600 µg á dag. Of stórir skammtar af joði geta meðal annars valdið krabbameini í skjaldkirtli.

Viðskiptavinum sem hafa keypt vöruna er bent á að neyta hennar ekki og farga eða skila henni í þeirri verslun þar sem hún var keypt gegn endurgreiðslu.