Illugi: „út í hvaða rugl er katrín jakobsdóttir eiginlega komin? [...] lætur vorkenna sér soldið þegar hún er gagnrýnd“

Lögmaðurinn Andri Árnason hefur fengið rúmar 17,7 milljónir greiddar frá Embætti ríkislögmanns, en hann er settur ríkislögmaður í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu í dag. Andri var skipaður af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra, eftir að Einar Karl Hallvarðsson, sitjandi ríkislögmaður, sagðist vera vanhæfur. Ástæða þess að Einar taldi sig vera vanhæfan var sú að hann er sonur Hallvarðs Einarssonar, en hann vararíkissaksóknari á þeim tíma sem Guðmundar- og Geirfinnsmálinu var í gangi. 

Illugi Jökulsson spyr á Facebook síðu sinni út í hvaða rugl Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, sé eiginlega komin í. Þá segir hann að hún hafi sérvalið sér ríkislögmann og hafi svo bókstaflega dælt í hann peningum.

„Fyrirgefiði fjórtán sinnum, en út í hvaða rugl er Katrín Jakobsdóttir eiginlega komin? Hún sérvelur sinn ríkislögmann, bókstaflega dælir í hann peningum, hreyfir engum andmælum þegar hann hafnar sjálfsagðri bótakröfu sakborninga í Geirfinnsmálinu, lætur vorkenna SÉR soldið þegar hún er gagnrýnd, en dregur ekki ósiðlegt plagg lögmanns síns til baka - og hann verður áfram á ofurlaunum við að þrjóskast gegn kröfum sakborninga. Hvað er þetta eiginlega?“

Ekki er ljóst hversu mikil vinna er eftir vegna sýknudómsins í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og er því ekki um endanlegan kostnað að ræða vegna málsins. Enginn hinna sýknuðu hefur enn fengið greitt inn á sínar kröfur.