Hulda bjarnadóttir segir upp á k100

„Hún er farin á flæðilínuna,“ sagði Logi Bergmann og mér fannst það frábær lokaorð í þætti dagsins. Lýsandi fyrir vegferðina framundan. Og líka lýsandi fyrir það hve orðheppinn og hnyttinn maðurinn er.“

Þetta segir Hulda Bjarnadóttir sem í vikunni sagði upp störfum á útvarpsstöðinni K100. Líkt og kemur fram á Vísi mun Hulda taka við nýrri stöðu hjá mannauðssviði Marels þar sem hún mun leiða margvísleg alþjóðleg verkefni, t.d. verkefni tengd helgun starfsmanna og starfsmannamenningu. Einnig mun hún leiða innleiðingarverkefni á sviði mannauðsmála. Hún mun formlega hefja störf fyrir fyrirtækið þann 1. júní næstkomandi. Verður Huldu ætlað að styðja við stjórnendur og starfsmenn á tímum vaxtar.

Hulda kvaddi hlustendur sína í morgun og þá birtir hún kveðju nú í kvöld á Facebook. Þar segir Hulda:

„Takk fyrir að hlusta öllsömul! Treysti því að þið stillið áfram á ferskustu stöðina og þá frábæru vini mína sem standa vaktina áfram. Ég kveð góða vini og þá bestu í sínu fagi til að vinna með þeim bestu á heimsvísu hjá Marel,“ segir Hulda og bætir við:

„Klisjukennt að segja það en þakklæti er mér efst í huga þegar ég hugsa hve heppin ég er að vera valin til starfa með þeim bestu hverju sinni. Ég hef ávallt lagt mitt af mörkum, en ekki sjálfgefið að vera treyst fyrir eintómri skemmtun og metnaðarfullum verkefnum. Takk fyrir mig!“