Hraunað yfir guðmund: það þarf að taka á „svona ógeðslegri orðræðu“

Fordómafull grein í Morgunblaðinu eftir Guðmund Oddsson, fyrrverandi skólastjóra og fyrrverandi varaþingmann Alþýðuflokksins hefur vakið athygli eftir að DV gerði sér mat úr henni. Þar fjallaði Guðmundur um mótmælin vegna komu Mike Pence þar sem fjölmörgum hinsegin fánum var flaggað. Guðmundur sagði meðal annars:

„Ég velti fyrir mér hvort búið sé að skipta okkar gamla fána út? Það hlýtur að vera sjálfsögð kurteisi þegar um opinbera heimsókn er að ræða að þjóðfáni okkar sé hafður í öndvegi en ekki einhver marglit dula.“ Þá sagði Guðmundur einnig:

„Ég átta mig raunar ekki á á hvaða vegferð við erum. Í nokkur ár hafa verið haldnir svokallaðir hinsegin dagar, þar sem allir fjölmiðlar keppast við að auglýsa göngu þeirra sem eru einhverra hluta vegna öðruvísi en aðrir. [...] Hvaða málstað? Að vera eitthvað öðruvísi en fjöldinn. Þarf þjóðfélagið virkilega að fara á annan endann þótt einhverjir séu öðruvísi en aðrir?“

Þá sagði Guðmundur að hann væri orðinn verulega áhyggjufullur og bætti við:  „Ég er að verða verulega áhyggjufullur vegna orðræðu sem er í gangi varðandi þessi mál. Börn og unglingar eru mjög viðkvæm gagnvart þessum hlutum og þegar svo er komið að Siggi frændi er einn góðan veðurdag orðinn Anna frænka finnst mér mælirinn vera fullur. Maður fær það einhvern veginn á tilfinninguna að það sé orðið tískufyrirbæri hvort maður er karlkyns, kvenkyns eða jafnvel hvorugkyns.“

Karen Kjartansdóttir framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar vekur athygli á grein Guðmundar og þeim fordómafullu ummælum sem þar er að finna að hennar mati. Hún segir: „Einn af okkar öflugustu liðsmönnum í Félagi áhyggjufullra karla er verulega áhyggjufullur“ Fjölmargir tjá sig undir gagnrýni Karenar. Ragnhildur Sverrisdóttir, talskona Björgólfs Thors Björgólfssonar segir: „Hvers eiga þeir að gjalda sem ekki eru hinsegin? Það virðist enginn áhugi á að vekja athygli á þeim\". Vekja athygli á hverju, þá? Að þeir hafi ekki öðlast full mannréttindi á við, tja, sjálfa sig??“ Þá segir hún á öðrum stað:

„En þetta með Sigga og Önnu er auðvitað alveg ferlegt! Það hefur svo svakaleg áhrif á HANS líf, sko! Mælirinn fullur og hann ábyggilega svefnlaus af öllum þessum áhyggjum! Skítt með Sigga/Önnu. Það óupplýsta pakk hleypur bara eftir tískunni.“

Anna Kristjánsdóttir var fyrsta íslenska transkonan sem kom fram fyrir augu þjóðarinnar er allt annað en sátt.  „Það eru akkúrat svona karlar sem sanna nauðsyn á tilvist samtaka á borð við Samtökin 78.“

Stefán Pálsson tjáir sig: „Guðmundur Oddsson var grunnskólastjóri í Kópavogi og stóð fyrir því að farið var með nemendur í reglubundnar heimsóknir í herstöðina í Keflavík og brást afar illa við því þegar fundið var að þessu.“

Stefán Hrafn Hagalín segir Guðmund þráhyggjufullan og að það þurfi að taka á „svona ógeðslegri orðræðu og velta upp ábyrgð þeirra sem hana birta. Ekkert skárra að hossa svona risaeðlurausi en að sýna rasisma umburðarlyndi.“