Nonni Ragnarsson er látinn. Nonni Ragnars var myndlistarmaður, frumkvöðull, mannréttindarsinni, spámaður, litrík sál, hrekklaus, blíður en með sterkar skoðanir. Sýn hans á lífið var falleg og jákvæð. Þetta eru nokkrir af mörgum mannkostum hans eins og þeim er lýst af vinum á samfélagsmiðlum.
Einn okkar fremsti tónlistarmaður, Hörður Torfason, minnir vinar síns í fallegum pistli á Fésbókar-síðu sinni. Þar segir Hörður:
„Var að fá andlátsfrétt vinar míns Nonna Ragnars. Það er sárt að frétta. Ég kynntist Nonna í Kaupmannahöfn 1970 og í nokkur ár lágu leiðir okkar saman. Nonni var einstaklega einlæg manneskja og mjög fylgin skoðunum sínum og óhræddur við að láta þær í ljós. Hann var t.d. einstakur sögumaður og ég naut þess að setjast með honum i sólina í Kongens Have eftir að hann fékk sér í pípu, nuddaði ört saman lófunum, smáhló og hóf að spinna sögur. Stórkostlegar sögur og flestar með einhverjum broddi í.Ég hló mig máttlausan.“
Hörður lýsir því að eftir umdeilt viðtal í Samúel frá árinu 1975 hafi hann reynt að setja saman baráttusamtök fyrir réttindum homma og lesbía. Var það erfitt og vanþakklátt verk. Hörður segir:
„Ég leitaði ákaft eftir stuðningi hommahópsins í Reykjavík um að koma úr felum og takast á við ömurlegt ástand, en engin þeirra þorði nema Nonni. Nonni hafði hugrekki og manndóm í sér. Nonni var óhrædd, mjög blíðlynd, listræn og einlæg manneskja. Ég held að allir sem komu inn í áruna hans hafi orðið fyrir jákvæðum áhrifum.“
Hörður segir að vinarof hafi orðið um tíma. Hann lýsir því á þessa leið:
„Það urðu vinarof og áfall okkur báðum þegar ég varð að hindra hann í að mæta aftur á undirbúningsfundi Samtakanna ´78. Það var eina færa leiðin í stöðunni því Nonni hafði gert það sem honum fannst sjálfsagt; að ræða málin útí bæ við hina og þessa. Sagt frá hvað gerðist á fyrsta undirbúningsfundinum og jafnvel nefnt nöfn. Allt ætlaði um koll að keyra! Menn kröfðust þess af mér að ég útilokaði Nonna frá frekari fundarhöldum eða að þeir myndu ekki mæta!“
Hörður heldur áfram: „Ég ræddi við Nonna um málið og hann gekkst við stöðunni ósáttur, eins og ég. En hann var særður og eftir það sá ég hann ekki mjög lengi. Það gerðist þó fyrir algjöra tilviljun að við hittumst og okkur fannst þá báðum að það væri eins og við hefðu spjallað saman daginn áður þó reyndin væri að liðið höfðu áratugir.“
Hörður Torfason
Nonni var litrík manneskja, skapandi og þorði að fara sínar eigin leiðir, segir Hörður. Þá var hann einnig einstakur og gefandi. Hörður segir:
„Flestum okkar sem upplifðum skapandi tímabil í lífi Nonna, þar sem hann dansaði, sagði sögur sínar og sýndi myndir sínar í þá nýopnuðu Djúpinu í Hafnarstræti, var tímabil ógleymanlegra upplifanna.“
Hörður bætir við að lokum:
„Nonni var örlátur á hæfileika sína og veitti óspart, okkur hinum, til mikillar gleði. Takk fyrir samfylgdina vinur minn.“